Moldviðrin geisa

Það getur nú verið fjári misveðrasamt í pólitík eins og náttúrunni, og stundum gengur til að mynda á með afskaplega þrálátu moldviðri svo varla sést nokkur glóra. Að stríð sem Rússar heyja í Úkraínu verði tilefni máttarvalda á Vesturlöndum til að blása upp slíkum óhroða er umhugsunarefni út af fyrir sig: standa þau ekki annars utan þessara átaka? Hvers vegna er ekki hægt að notfæra sér fjarlægð frá atburðum til að skoða heildarsamhengi þeirra, rökræða það heldur stillilegar í „lýðræðislegum“ anda, reyna að skilja það, taka svo upplýsta afstöðu? Hvers vegna allan þennan ofstopakennda æsing? Ástæðan er sú að Vesturlönd standa raunar ekki utan þessarar atburðarásar. Afstaða vestrænna auðvaldsríkja liggur vitaskuld fyrir. Þau styðja stjórnina í Kænugarði og styðja hana nánar tiltekið með vopnasendingum og einhliða fjölmiðlaherferð.

Öll saga Atlantshafsbandalagsins og hernaðarsaga aðildarríkja þess er ljót og málstaður þess vondur, og afskipti bandalagsins af Úkraínu eru engin undantekning. Moldviðrinu er beinlínis ætlað að koma í veg fyrir gagnrýna skoðun á samhengi atburða og hræða fólk frá því að gagnrýna þátt bandalagsins, skoða umsvif þess á svæðinu, spyrja hvort það sé vænlegur aðili til að koma á varanlegum friði. Það er því ekki úr vegi að byrja þessar athugasemdir á því að skoða innihald óhroðans sem Vesturlönd þyrla upp.

(1) Eitt af því sem þessir andstæðingar okkar vinstrimanna tilfæra er ásökun um „hvaðmeðhyggju“. Þarna er átt við afbrigði þess sem á íslensku hefur löngum verið kallað að drepa málum á dreif. Þegar þessum merkimiða er klínt á vinstrimenn á Vesturlöndum sem eru svo „ófyrirleitnir“ að gagnrýna Atlantshafsbandalagið er átt við þetta: þeir geti aldrei einfaldlega fordæmt innrásina heldur prjóni alltaf við einhverjum málalengingum og flækjum um hliðstæðar aðgerðir annarra ríkja en Rússlands, svo á endanum sé vart hægt að segja að þeir fordæmi innrásina „í raun og veru“. Að baki þessari ásökun virðist einfaldlega búa sú hugsun að ekki sé unnt að réttlæta ofbeldi af hálfu x með tilvísun til ofbeldis sem y hefur einnig haft í frammi – það er einfaldlega óréttmætt hvað sem verkum y líður.

Þetta er vitaskuld alveg rétt eins og við getum séð af einföldu dæmi. Setjum svo – bara í gamni, alveg út í bláinn – að við komumst á snoðir um að valdsmaður sem við skulum kalla Bjarna Benediktsson svíki undan skatti. Ef einhvern skyldi langa til að fordæma framferði hans, þarf hann ekki að setja á langar tölur um annað fólk sem einnig hefur komið fjármunum sínum undan, og þaðan af síður er hægt að afsaka Bjarna með tilvísun til þess að fjöldamargir aðrir geri þetta líka, því það skiptir nefnilega engu máli: Bjarni á bara ekki að haga sér svona. Hann á að borga skatt rétt eins og við launafólkið sem höfum flest hver ekki einu sinni möguleika á skattsvikum.

En við vorum að tala um stríðið í Úkraínu. Hvað það snertir er vert að gæta að því hvar og hvenær þessi ásökun um „hvaðmeðhyggju“ er sett fram: því hún er notuð gegn vinstrimönnum sem hafa einmitt fordæmt innrásina, en lýsa sig jafnframt mótfallna hernaðarumsvifum Atlantshafsbandalagsins á svæðinu. Álit þeirra sem beita ásökunum um hvaðmeðhyggju svona er þannig í stuttu máli að ekki sé hægt að taka mark á andstöðu fólks við stríð Pútíns nema þá og því aðeins að þeir fjalli jafnframt ekki um hugsanlega ábyrgð annarra en Pútíns á því ástandi sem upp er komið í þessu heimshorni.

Þetta er vitanlega ekki sama röksemd og áður var rakin. Raunar er þetta yfirhöfuð ekki gild röksemdafærsla, heldur innantómur orðavaðall og hundakúnstir. Stríð Pútíns er svo sannarlega stríð Pútíns, og án nokkurs vafa afdrifarík ákvörðun. En pólitískt ástand á svæðinu ræðst engu að síður af fleiri þáttum en ákvörðun Rússlandsforseta einni sér, og hvers konar ákvarðanir um hvað eigi að gera í málum, hvaða afstöðu eigi að taka, o.s.frv. hljóta að miðast við mat á hinu pólitíska ástandi í heild og aðdraganda þess. Ef það ætti að koma því heim og saman að vinstrisinnaðir gagnrýnendur Atlantshafsbandalagsins séu raunar stuðningsmenn Pútíns og rússnesku innrásarinnar þyrfti að bæta við aukaforsendu sem aldrei er nefnd. Sú forsenda er að „raunveruleg“ andstaða við Pútín hljóti að vera stuðningur við Atlantshafsbandalagið eða alltént þögult samþykki við umsvifum þess á svæðinu.

Þannig má ráða af gloppu í „röksemdinni“ sjálfri að átökin verði naumast rædd án þess að huga að þætti bandalagsins. Henni er ætlað að fela þá innantómu og augljósu hræsni að fordæma það sem Rússar nú gera – að ráðast inn í annað fullvalda ríki – en fordæma ekki sama verknað þegar Bandaríkin framkvæma hann með margföldum mannlegum fórnarkostnaði; og umfram allt er henni ætlað að drepa á dreif annarri spurningu sem snýr ekki aðeins að þeim sem eiga í stríðsátökum, heldur einnig að okkur Vesturlandabúum sjálfum: er Atlantshafsbandalagið hluti lausnarinnar eða hluti vandans?

(2) Annar þátturinn er kenningin um óheilaga þrenningu. Þegar rússneski herinn hóf innrásina barst óðara yfirlýsing frá Bandaríkjaforseta þar sem sagði að hún hafi verið „unprovoked“. Það er spurning hvernig eigi að skilja slíkt orðalag, en Biden virðist eiga við að ekkert hafi áður átt sér stað sem skýrt geti ákvörðun Pútíns, og hún sé því tekin upp úr þurru. Stærri fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa síðan, af einhverjum völdum, gert þetta að einkunnarorðum sínum í allri umfjöllun um stríðið: það sem máli skiptir er aðeins eitt, nefnilega sú staðreynd að Pútín tók þessa ákvörðun án tilefnis, upp úr þurru; allar frekari vangaveltur um ábyrgðina á því hvernig málum er nú komið eru skoðaðar sem einhvers konar svik við Úkraínubúa, jafn undarlegt og það nú er.

Eftir þessari hugsun, í anda Bidens, verður ákvörðun Pútíns því ekki skýrð nema með því að skyggnast í myrkviði sálarlífs hans … en viti menn! Til allrar hamingju liggur niðurstaðan úr þeim skuggalega leiðangri einmitt þegar fyrir! Meginatriðin eru sem hér segir: Pútín er (1) geðveikur; (2) vondur; og (3) þríeinn eins og almættið, því hann er nefnilega í alvörunni Hitler, eins og Saddam Hussein var líka forðum.

Það er aldeilis ekkert slor að hafa svona vandaða og trausta kenningu um orsakir hildarleiksins; og hún er svo áreiðanleg að það er ekki aðeins óþarfi heldur beinlínis ljótt að skoða hana nánar. Okkur er einfaldlega ekkert að vanbúnaði að vinda okkur óðara í matið á stríðinu, og þar ber að halda sig við að skoða það í siðferðilegu ljósi – umfram allt ekki pólitísku ljósi eða efnahagslegu, enda gæfi það tilefni til alls konar athugana og deilna sem leiða ekki endilega til „réttrar“ niðurstöðu. Við blasir að frá siðferðilegu sjónarmiði er ákvörðun Pútíns ekki aðeins ámælisverð, heldur blátt áfram forkastanleg, auk þess sem hún fer í bága við alþjóðalög. Hvaða þýðingu skyldi það nú hafa að fella siðadóma um gjörðir geðveiks illmennis, getur hann talist siðferðisvera, er hann ábyrgur gjörða sinna? Það hefur vitanlega ekki aðra þýðingu en þá að manninn verði að stoppa í því að gera frekari skaða. Þess vegna kemur ákallið svo umsvifalaust: Meiri framlög til hergagnaframleiðslu! Meira af vopnum! Meiri viðbúnað af hálfu Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess!

Óþarfi svo sem að taka það fram … en látum aðrar meðfylgjandi hugmyndir um ríkisútgjöld fljóta með sisvona í gamni: skítt með almenningsheilbrigði, niður með menntun, bótakerfi og allan slíkan hégóma. Það kostar nefnilega pening. Öll er þessi hugsun afar skynsamleg, og svo heppilega vill til að svona ráðagerðir koma óligörkum vestræns kapítalisma ljómandi vel.

Vitanlega halda menn áfram að prjóna við þessa hugsun af öllu því hyggjuviti sem þeir geta kreist fram, sumir af veikum mætti, og hefur verið stungið upp á því að einhver í Guðs bænum myrði Pútín, enda verði heimurinn þá loks betri. Þannig mæla siðapostular vorra tíma; þeir vita að boðorðin binda aðeins hendur andstæðinga sinna, ekki þeirra sjálfra. Aðrir vitringar, eins og til dæmis hinn ábyrgi og trausti vinur Vesturlanda, Selenskí, forseti Úkraínu, hvetja til þess að Atlantshafsbandalagið tryggi flugbann yfir Úkraínu,þ.e. blandi sér beinlínis í vopnaskakið sjálft þótt augljóst virðist að það leiði til kjarnorkustríðs. Joe Biden kveðst að vísu ekki geta orðið við þessari bón en er svo elskulegur að dæla vopnum í Selenskí til að draga átökin á langinn, enda deyja þá fleiri rússneskir og úkraínskir hermenn, svo og úkraínskir borgarar, og allir geta verið ánægðir. Bandaríkjastjórn borgar og úðar í sig poppkorni.

(3) Enn er ónefndur alveg ómissandi uppistöðuþáttur í moldviðrinu. Ef þvættingurinn sem ég hef rakið hér á undan á að hafa tilætluð áhrif þarf fólk helst að vera skelkað og í uppnámi, þá virkar ruglið betur. Til að renna stoðum undir þá kenningu um orsakir hildarleiksins að Pútín sé sturlað illmenni, sprottið alskapað úr gömlu hasarblaði, var strax tilfærð meint hótun hans um beitingu kjarnorkuvopna. Pútín hafði nefnilega sagt í ávarpinu sem var sent út í þann mund að innrásin hófst að öll hernaðarafskipti aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hefðu þegar í för með sér „afleiðingar án fordæma í ykkar sögu“. Franski utanríkisráðherrann, Jean-Yves La Drieu, ansaði þessu í hendingskasti og minnti á að Rússar væru ekki eina kjarnorkuveldið … jafn gáfulegt og það nú er, því naumast hefur maðurinn haldið að Pútín vissi það ekki. Orð Pútíns hafa digurbarkalegan og harkalegan tón, þau eru stríðstal. En hvað skyldu þau merkja? Af þeim má auðveldlega ráða að ekki sé verið að hóta því sérstaklega að beita kjarnorkuvopnum. Gleymum því ekki að beiting þeirra í stríði væri einmitt ekki fordæmalaus, eins og Pútín veit jafnvel og við öll; hann veit líka mætavel hvaða ríki hefur beitt þeim, hvar og hvenær. Orð hans merkja einfaldlega þetta: „Ef einhver abbast upp á Rússa verður hann sko barinn í buff,“ eða eins og þessi hugsun er líka stundum orðuð: „Pabbi minn er lögga“. Þetta er ekki merkileg hugsun og orðin ekki heldur. Pútín hafði tekið ákvörðun um að hefja stríð og ekki varð aftur snúið; hann stendur við ákvörðun sína og lætur ekkert röfl stöðva sig í að ná markmiðum sínum. Önnur yfirlýsing nokkrum dögum síðar merkir nákvæmlega það sama. Ef einhver ræðst á Rússland verður því svarað af fullri hörku, með kjarnorkuvopnum ef því er að skipta. Í stuttu máli: árásum verður svarað.

Slegið er upp getgátum um að Pútín sé ofsóknarbrjálaður og einangraður, og okkur boðið að draga þá ályktun af … hérnahér, ýmsum ljósmyndum af manninum. Það fyrirgefst vonandi þótt ég hirði ekki að ræða slíka heimsku nánar. En einnig er því slegið upp að „sérfræðingar“ telji að Rússar kunni að hafa fyrirætlanir um innrás í Litháen og hugsanlega önnur ríki: allt tilhæfulausar getgátur út í loftið. En Pútín ætlar að nota efnavopn, helvítis beinið! Þessi ásökun kom fram þegar Rússar höfðu fundið bandarísk lífræn vopn í Úkraínu. Hvað hafa menn svo fyrir sér í því að Rússar hyggist koma höggi á Úkraínuher – en einkum þó sjálfa sig – með beitingu efnavopna? Ekki neitt nema fullyrðingar bandarískra „sérfræðinga“. Fjölmiðlarnir þegja hins vegar þunnu hljóði um fund Rússa, og virðast ætlast til þess að fólk trúi því án athugunar að það sé eintóm Rússalygi. Það ættum við ekki að gera, og síst í ljósi þess sem Tulsi Gabbard hefur dregið fram í dagsljósið. Við ættum ekki heldur að trúa öllum málflutningi Selenskís og úkraínskra stjórnvalda án athugunar, án fjölmiðla sem reyna að gegn því hlutverki sem ósköp alvanalegur borgaralegur lýðræðisskilningur ætlar þeim.

Hugsum nú, gott fólk. Og minnumst þess að Bandaríkin hafa aldrei komið að nokkrum átökum án þess að beita fyrir sig lygum, falsfréttum og blekkingavaðli. Skemmst er að minnast Íraksstríðsins þar sem þetta blasir við. Það sakar varla að setja það á bak við eyrað: fjölmiðlar sem gera ekki annað en að enduróma bandaríska utanríkisstefnu eru ekki áreiðanlegt haldreipi til að komast hjá falsfréttum. Við komumst ekki hjá því að nota eigin dómgreind. Réttilega er vakin athygli á því hvernig þjarmað hefur verið að fjölmiðlun og fréttamennsku í Rússlandi, slíkt er ills viti. En gætum að því að Selenskí hefur gripið til hliðstæðra ráðstafana í Úkraínu til að hafa fulla stjórn á fréttum af stríðinu, og það er einmitt málflutningur stjórnar hans sem er öll uppistaðan í frásögnum vestrænna fjölmiðla. Þetta er fyrir neðan allar hellur. Samkvæmt alvanalegum borgaralegum lýðræðisskilningi hafa fjölmiðlar því hlutverki að gegna að veita okkur áreiðanlegar upplýsingar um staðreyndir mála og ganga úr skugga um á hverju raunar gangi þegar skrítin tíðindi fara að berast. Þessu hlutverki bregðast stórir fjölmiðlar á Vesturlöndum og kjósa fremur að gerast einfaldar málpípur bandarískrar utanríkisstefnu, flytja okkur þvaður sem þarlend stjórnvöld vilja koma á framfæri. Samtímis er mikið gert úr upplýsingaóreiðu sem fylgi Rússum. Því er ekki að neita að þeir ljúga … líka. Alls staðar er almenningi sýnd ótrúleg fyrirlitning með „fréttamennsku“ og „fjölmiðlun“ sem ekki er annað en einhliða áróður á svo heimskulegu plani að þeir sem bera ábyrgð á honum hlytu að skammast sín … ef þeir hefðu minnsta snefil af stolti, metnaði og áræði sem fréttamiðlarar.

Mannleg vinna í fræðum Marx, 1. hluti

Vinnuhugtakið er engan veginn sjálfgefið. Framleiðslustarfsemi manna getur verið af margvíslegasta tagi og spannar allt frá leirkerasmíði Assýringa að fornu eða púðurframleiðslu Kínverja á 13. öld til rauðvínsgerðar í Bourdeaux, hljómtækjaframleiðslu í Japan eða kartöfluræktar í Þykkvabæ, og þannig mætti endalaust telja áfram. Ef við reyndum að hugsa okkur mengi allra hinna hluttæku vinnuferla yrði því fyrir okkur afskaplega fjölskrúðugt safn, og reynsluheimur framleiðendanna að sama skapi gjörólíkur, eins og nærri má geta. En þar að auki má hugsa sér að nálgast efnið eftir ýmiss konar fræðilegum leiðum eða nálgunum. Það er því ekki vandalaust að ræða um vinnu eða framleiðslu án frekari skýringa. Marx fer ákveðna leið í þessu efni sem miklu varðar að skilja.

Sértak framleiðslunnar nefnir Marx gjarnan mannlega vinnu í síðari ritum sínum.[1] Kjarni þess er þegar til staðar í Parísarhandritunum (1844) og leikur þar mikilvægt hlutverk, en hugtakakerfi hans um gagnrýni þjóðhagfræðinnar er þá enn á algeru frumstigi, og orðið vinnu hefur hann í skilningi þjóðhagfræðinnar að segja má: hann á við firrta vinnu og hið sögulega verkefni öreiganna er þess vegna, líkt og í Þýsku hugmyndafræðinni (1845-1846) afnám vinnunnar.[2]

Framsetning hans á sértaki mannlegrar vinnu er orðin miklu skýrari í Auðmagninu (1867), en þar segir hann:

Vinnan er umfram allt […] ferli þar sem maðurinn miðlar efnaskiptum sínum og náttúrunnar um athafnir sínar, reglubindur þau og hefur á þeim taumhald fyrir tilstuðlan eigin athafna. Hann tekst á við efnivið náttúrunnar sem náttúruafl. Hann virkjar náttúruöflin sem búa í líkama hans sjálfs, handleggi, fætur, höfuð og hendur, til þess að gera efnivið náttúrunnar að sínum, á formi sem lagað hefur verið að þörfum hans. Með þessari hreyfingu verkar hann á hina ytri náttúru og breytir henni og breytir með þessum hætti jafnframt sínu eigin eðli. Hann laðar fram möguleikana sem blunda í náttúrunni, og setur leik náttúruaflanna undir yfirráðavald sitt. […] Vinnuferlið, eins og við höfum nú kynnt það með tilliti til einfaldra og sértækra þátta þess, er markmiðsbundin virkni sem miðar að framleiðslu notagilda. Það er aðlögun þess sem til er í náttúrunni að þörfum mannsins. Það er altækt skilyrði efnaskipta manns og náttúru, ævarandi náttúruþvingað skilyrði mannlegrar tilveru, og er þess vegna … sameiginlegt öllum samfélagsformum sem menn lifa við.[3]

Það er vert að staldra nokkuð við og skoða ólíkar hliðar á þeirri hugmynd um mannlega vinnu sem kemur fram í þessum orðum.

Fyrst er þess að geta að Marx hugsar sértak vinnunnar sjálft sem sköpun notagilda. Það er sem sé skilgreiningaratriði um alla vinnu að hún miðar að því að skapa notagildi; menn geta tekið sér allt mögulegt fyrir hendur, en vinna ekki að nauðsynjalausu; fyrirhuguð niðurstaða hvers vinnuferils, afurðir vinnunnar, eru því hlutir sem svala einhverjum þörfum manna á hverjum tíma. Þetta virðist eiga við um alla framleiðslustarfsemi, hvar og hvenær sem er. Í þessu vinnuhugtaki eru sérteknir þættir sem einkenna alla vinnu, alltaf og ævinlega, hvert sem samfélagsformið kann að vera, og fyrst og fremst er því slegið föstu að hún er alltaf ætluð til þess að svala einhvers konar þörfum. En ef nánar er að gáð er raunar ekki sértekið frá öllu sögulegu eða félagslegu samhengi, því vinna manna hlýtur raunar alltaf að vera félagsleg starfsemi, hvernig sem félagslegri umgjörð hennar er svo hagað.

Í framleiðslu verka menn ekki einungis á náttúruna, heldur og hverjir á aðra. Þeir framleiða aðeins með því að starfa saman á ákveðinn hátt og skiptast á störfum. Til þess að framleiða koma þeir á ákveðnum tengslum og afstæðum sín á milli, og verkanir þeirra á náttúruna, framleiðslan, er bundin þessum félagslegu tengslum og afstæðum.[4]

Með nákvæmara orðalagi eru sérteknir þeir sameiginlegu þættir vinnuferla sem notagildasköpunar sem ekki binda þá einstökum sögulegum framleiðsluháttum. Það er því er undirskilið að vinnan sé alltaf félagsleg starfsemi, hún er alltaf virkni (einhvers konar) félagsveru. Í öllum hluttækum, raunverulegum vinnuferlum hafa menn skipað sér um framleiðsluna á einhvern hátt og þar hefur því einnig myndast einhver tiltekin afstaða þeirra hvers til annars, hvernig sem henni er annars nákvæmlega farið hverju sinni.

Gætum einnig að hinni ríku áherslu sem Marx leggur á að vinnan sé tilgangsferli, og það undirstrikar hann enn frekar með þessum orðum:

Kóngulóin hefst líkt að og vefari, og býfluga hólfar hunangskúpu sína þannig að margur byggingameistarinn mætti blygðast sín. En það sem skilur á milli slakasta byggingameistarans og snjöllustu býflugunnar er að hann byggir herbergin í huganum áður en hann mótar þau í vax. Í lok hvers vinnuferlis birtist niðurstaða sem vinnumaðurinn hafði þegar hugsað sér við upphaf þess, og var þannig þegar til staðar í hugsýn. Maðurinn áorkar ekki aðeins því að formbreyta náttúrulegum efnivið, heldur raungerir hann sín eigin markmið í efniviðnum. Og þetta er markmið sem hann er sér vitandi um, það ræður því með strangleika lögmálsins hvernig hann hagar starfi sínu, og hann verður að beygja vilja sinn undir það.[5]

Í vinnunni raungerir maðurinn markmið sín og skapar nýjar afurðir. Til þess þarf hann að geta beitt sig umtalsverðum aga, hafa hemil á hvers kyns tilfallandi löngunum, tilfinningum, hvötum, o.s.frv. og halda sig við að setja af stað viðeigandi orsakakeðju.[6] Þannig mætti segja sem svo að vinnan sé tæknilega rökvísleg athöfn, og Jürgen Habermas hefur greint hana sem slíka frá athöfnum sem fela í sér það sem hann nefnir samskiptarökvísi.[7] Naumast er þetta alveg úr lausu lofti gripið, því framkvæmd vinnuferlis hlýtur einmitt að vera hagað þannig að hún skili réttri niðurstöðu, hlutnum sem framleiða á. En það sem fyrir Marx vakir er þó vel að merkja ekki að draga einfaldlega fram mun ólíkra kjörmynda („ídealtýpískan“ greinarmun), almenn flokkunarfræði, heldur að skilja verufræðilega þýðingu vinnunnar. Keppikefli hans er í minni mæli það að flokka athafnir manna niður í ólíkar sortir og greina vinnuathafnir almennt frá öðrum tegundum athafna en að varpa fram kenningu um það hvernig veruleiki vinnunnar hefur þróast í samspili við samfélagshætti manna.

Þarfir manna eru skilgreiningaratriði um vinnu, sögðum við. En þær eru ósköp prósaískur veruleiki og raunar af margbreytilegasta tagi; það er auðsætt að þær hafa tekið miklum breytingum í sögunnar rás. Við teljum okkur þurfa æði margt sem enginn hafði minnsta hugboð um á fyrri tímum, og til dæmis kvað vera illt að hafa engan snjallsíma. Ekki verður samt greint af heimildum að Júlíus Sesar hafi vanhagað um slíkt apparat þegar hann herjaði á Galla, svo dæmi sé nefnt; og jafnvel þótt honum hefði einhverju sinni orðið hugsað til þess að gott væri að geta haft samband alveg á stundinni við Pompejus í Róm – eða kannske einhverja menn aðra – hefði það aðeins verið hugboð hans, ekki áþreifanleg þörf sem hægt hefði verið að bregðast við, t.d. með vinnu. Við getum líka orðað þetta öðruvísi og sagt sem svo að til þess hafi ekki verið neitt framleiðsluafl.

Þessi sögulega vídd er einmitt alltaf undir hjá Marx, einnig þegar hann skilgreinir sértök sín, t.d. það sértak mannlegrar vinnu sem við erum hér að skoða. Hann leitast því umfram allt við að skoða vinnuna sem sköpun, virka umbreytingu manns og náttúru. Á þeirri sköpun má greina tvær meginhliðar, þ.e. nytjahorf og mennskuhorf sem við getum svo kallað.[8] Um nytjahorf vinnunnar höfum við þegar fjallað – menn vinna ekki út í bláinn, heldur til að svala þörfum sínum, búa til notagildi, þ.e. breyta náttúrulegum hlutum í nytjahluti. Þannig felst í vinnuferlinu sköpun hluta sem ekki voru til staðar við upphaf þess. Leiða má að því líkur að fyrsta viðleitni hins verðandi manns hafi verið næsta fálmkennd og lítils megnug, en í rás þróunar mannsins vindur fiktið upp á sig, og smám saman er öllu hinu náttúrulega umhverfi mannsins á jörðinni breytt í gríðarlegum mæli.

En þetta nytjahorf vinnunnar segir raunar ekki hálfa söguna. Vinnan, „efnaskipti manns og náttúru“, eins og Marx lýsir henni tíðum, er ekki aðeins sköpun hluta og umbreyting ytri náttúru, því maðurinn breytir raunar sjálfum sér, skapar sjálfan sig á vissan hátt, fyrir milligöngu vinnunnar. Þetta er mennskuhorf vinnunnar, og það má svo aftur tvígreina. Annars vegar breytir vinnan einstaklingnum sem hana stundar og er af hans hálfu meðvituð starfsemi þar sem hann beislar náttúruna í sjálfum sér (tilfinningar, hvatir og langanir, eins og áður sagði), þroskast og eykur mennt sína, ef svo má segja, jafnhliða því að hann sveigir hina ytri náttúru undir vald sitt. Hins vegar er vinnan raunar alltaf félagslega skipulögð á einhvern hátt, virkni félagsveru, og tekur því jafnan til einhvers háttar mannsins á að skipa sér í afstöðu til annarra manna, eins og áður var getið.

Drögum saman í stuttu máli það sem fram er komið til þessa: (a) Vinnan er sköpun hluta, þ.e. notagilda. (b)(i) Vinnan breytir hinum vinnandi einstaklingi sem beislar náttúruna í sjálfum sér jafnframt því sem hann nær vaxandi tökum á hinni ytri náttúru. (b)(ii) Vinnan er jafnframt ákveðinn háttur manna á að skipa sér í afstöðu til annarra manna, félagsleg starfsemi.

En þetta margbrotna hugtak mannlegrar vinnu leikur einnig mikilsvert gagnrýnið hlutverk í fræðum Marx, einkum í áformi hans um gagnrýni þjóðhagfræðinnar, allt frá því að hann lagði fyrst drög að því í Parísarhandritum sínum, árið 1844. Þannig er engin hending að Marx vék líka að því sérstaklega í Auðmagninu (1867) í kafla sem þegar hefur verið vitnað til. Og í inngangstexta frá 1857 – mitt á milli Parísarhandritanna og Auðmagnsins – sem Marx ætlaði til birtingar í Drögum að gagnrýni þjóðhagfræðinnar (bók sem kom svo út tveimur árum síðar með frægum formála sem einnig verður raunar vitnað til hér á eftir) er einnig fjallað um það. Þar er þetta gagnrýna hlutverk sem ég minntist á afar skýrt.

Þegar við ræðum um framleiðslu er þannig ævinlega átt við framleiðslu á tilteknu stigi samfélagsþróunar, framleiðslu einstaklinga í samfélagi. Það kann því að virðast svo að til þess að færa framleiðslu í tal verðum við annað hvort að rekja hin ýmsu skeið hins sögulega þróunarferlis, eða lýsa öðrum kosti yfir því að við tökum til rannsóknar eitt tiltekið sögulegt tímabil, svo sem til dæmis borgaralega framleiðslu nútímans, sem raunar er umfjöllunarefni okkar. Öll tímaskeið framleiðslunnar hafa þó ákveðin samkenni, sameiginleg hugtök. Framleiðslan almennt er sértak, en vit í því að svo miklu leyti sem það dregur fram og skilgreinir hinar sameiginlegu hliðar svo komist verði hjá endurtekningum. Og þó er þetta almenna hugtak sjálft, eða hið sameiginlega horf sem samanburður hefur leitt í ljós, margskipt og klofið í veru hinna ólíku einkenna þess. Sum einkennin er að finna á öllum tímaskeiðum, önnur eru sameiginleg nokkrum tímaskeiðum. [Sum] einkennin eru sameiginleg hinum nútímalegustu og hinum fornustu. Framleiðslan er óhugsandi án þeirra. En […] þá þætti sem ekki eru almennir og sameiginlegir verður að greina frá hinum sem gilda um framleiðsluna sem slíka, þannig að í einingunni, sem leiðir af þeirri staðreynd að frumlagið, mannkynið, og andlagið, náttúran, er hið sama, týnist eðlismunurinn ekki niður. Öll viska þeirra nútíma hagfræðinga sem sýna fram á að ríkjandi samfélagsafstæður séu einn eilífðar samhljómur liggur í þessari gleymsku. Til dæmis er engin framleiðsla möguleg án framleiðslutækis, þó ekki sé nema handarinnar. Hún er ekki möguleg nema á grundvelli liðinnar, upphlaðinnar vinnu, eins þótt sú vinna sé ekki annað en hæfnin sem endurtekin æfing færir höndum villimannsins. Auðmagn er meðal annars framleiðslutæki, svo og liðin, efnisgerð vinna. Þar af leiðandi eru auðmagnsafstæðurnar eilífar og algildar – að því tilskildu að maður leiði hjá sér einmitt þær sérstöku eigindir sem einar gera „framleiðslutæki“ og „upphlaðna vinnu“ að auðmagni.[9]


[1] Ekki má slá þessu saman við það sem Marx nefnir „sértæka vinnu“, grundvöll skiptagildis vörunnar. Að því verður nánar vikið í síðari hluta þessara hugleiðinga.

[2] Sjá um þetta C.J. Arthur, Dialectics of Labour: Marx‘s Relation to Hegel, Oxford 1986.

[3] Marx, Capital, 1. bindi, Harmondsworth 1976, bls. 283, 290; sjá einnig bls. 133. Das Kapital I, Berlín 1962, bls. 192, 198, 57.

[4] Marx, „Launavinna og auðmagn“, Úrvalsrit I, bls. 141; þýðingu breytt; sbr. Marx, Lohnarbeit und Kapital/Lohn, Preis und Profit, Berlín 1998, bls. 26-27. Texta ísl. þýðingarinnar með nokkrum lagfæringum er að finna á vefsíðu minni, Safni til sögu sósíalískrar hreyfingar: https://ottomasson.wordpress.com/2017/02/28/karl-marx-1849-launavinna-og-audmagn/

[5] Marx, Capital, 1. bindi, bls. 283-284; Das Kapital I, bls. 193.

[6] Umfjöllun Georgs Lukács, The Ontology of Social Being. 3: Labour, London 1980, bregður talsverðu ljósi á þetta samhengi; sjá ekki síst fyrsta hlutann um samband orsaka og tilgengis, bls. 1-46.

[7] J. Habermas, „Technology and Science as „Ideology““, Toward a Rational Society, Boston 1968, einkum bls. 91-94.

[8] Sbr. áðurnefnda bók C.J. Arthur, Dialectics of Labour.

[9] Marx, „Introduction to a Critique of Political Economy“, í The German Ideology (ritstjóri C.J. Arthur), bls. 125-126.

Atburðirnir í Washington

Fréttir eru vitanlega enn að berast af atburðunum í Washington 6. janúar s.l., en meginatriðin virðast blasa við. Við getum sem betur fer hlegið smávegis í bili – þetta var ekki alvarleg valdaránstilraun, og við snögga skoðun líktist sjónarspilið helst einhvers konar fáránlegu fjölleikahússatriði. Og það svo sem rímar við vitleysuna sem Trump hefur svo oft haft í frammi á sinni tíð. En hin skoplega hlið málsins segir ekki hálfa sögu. Það er hætt við því að í augum trumpistanna sé meint kosningasvindl og árásin á þinghúsið enginn farsi, heldur afbragðsgóður stofn í mýtu og Ashli Babbitt gráupplagður píslarvottur. Alvöruhlið málsins má einnig marka af því að 45% stuðningsmanna Repúblikana eru hlynntir árásinni á þinghúsið, meirihluti þingmanna þeirra neituðu í kjölfar árásarinnar að samþykkja kosningaúrslitin og persónulegt fylgi við Trump er enn gríðarlegt. Alvara málsins býr einnig í sjálfsmyndunum öllum í Washington, sést af því að öryggisapparatið vissi vel af því hvað var í aðsigi en gerði ekkert til að afstýra því og opnaði hliðið fyrir þennan hægrisinnaða rumpulýð. Öfgahægriöflin sem Trump nær svo vel til eru nefnilega sterk í röðum alls þess apparats sem kennt er við „þjóðaröryggi“. Nú verður það einmitt sett á oddinn – ekki líf svartra.

Jafnvel lygar Trumps eru ekki eins hlálegar ef þess er gætt að þær voru raunar ekki nærri því eins mikil nýlunda og margir vildu vera láta, heldur komu í beinu framhaldi af áratugapólitík niðurskurðar, einkavæðingar og launafrystingar sem stjórnmálamenn hafa yfirleitt ekki treyst sér til að verja með rökum, heldur einungis með kredduvaðli, blekkingum, kjaftæði, hræsni, útúrsnúningum og lygum. Það er engin tilviljun: Hvernig á að réttlæta fyrir almenningi að vinna gegn honum og fyrir þrönga sérhagsmuni auðvaldsins? Trump er afsprengi þessa tíma. Hann er ekki afsprengi uppreisnar gegn frjálshyggju, heldur frambjóðandi og síðan forseti Repúblikana, forvígisafls frjálshyggju á heimsvísu. Það er orðið gamalt viðkvæði að stjórnmálamenn séu lygarar, og það gerðist ekki 2016. Lygaáráttan öðlast þyngd af því að stærri stjórnmálaflokkar standa alls staðar saman um svipaða efnahagsstefnu (frjálshyggju) og ekki síst í Bandaríkjunum þar sem tveggjaflokkakerfið býður upp á tvo auðvaldskosti og búið.

Hægriöfgar og fasismi

Ískyggilegasta hliðin á Trump er tengsl hans við hópa öfgahægrimanna í Bandaríkjunum. Trump hvatti þessa fylgismenn sína til að taka þátt í „villtum“ aðgerðum í Washington og þeir hlýddu kallinu. Af myndum má ráða að alltént sumir þeirra eru fasistar, bera margir skotvopn og vilja ólmir „sópa“ á götunum, þ.e. fara með ofbeldi gegn fólki sem þeim mislíkar. Trump hverfur úr embætti innan skamms, en hreyfingin – hyskið sem sópast hefur að Trump – hverfur ekki á næstunni, því miður. Forsetatími Trumps hefur hrist þetta fólk saman, veitt því hvatningu og sjálfstraust. Hann hefur hins vegar alltaf stuðst við þessi öfl eftir sínum hentugleikum, og hefur nú gefið yfirlýsingar sem þau túlka ýmist sem svik eða falsfréttir. Það er engin leið að vita hvernig þeim mun ganga að skipuleggja sig sjálfstætt á landsvísu, en það virðist líklegra en að þau taki Repúblikanaflokkinn hreinlega yfir.

Svona hópar byggja á langri arfleifð í Bandaríkjunum. Þarlendir stjórnmálamenn hafa lengi stært sig af því að vera hluti lýðræðisþjóðar, en það eru öfugmæli, og ekki einungis m.t.t. utanríkisstefnunnar. Bandaríkin sjálf eru afsprengi langrar og hroðalegrar ofbeldissögu – þjóðernishreinsunar gegn þeim sem byggðu Ameríku fyrir tíð „hvíta mannsins“ sem fór að skilgreina sjálfan sig sem slíkan, sem hvítan mann, þegar þrælahaldinu var komið á og varið með oddi og eggju. Eiginleg kynþáttahyggja eða etnískur rasismi á upphaf sitt í þessum aðstæðum og barst frá Bandaríkjunum til Þýskalands á sínum tíma. Nú hrífast svo bandarískir fasistar af orðum og gerðum Hitlers, og hafa svo sem gert það áður.

Fólkið sem verður virkt í þessum öfgahópum er oft ágætlega stætt, og hefur til dæmis efni á því að safna fullkomnum skotvopnum eða leggja í langferðalag til Washington með litlum fyrirvara. Pólitískt baksvið þess getur annars verið fjölbreytilegt – Ashli Babbitt hafði til dæmis stutt Obama eindregið á sínum tíma, en hafði óbeit á Hillary Clinton og ljáði Trump atkvæði sitt 2016. Öfgahægrið dregur til sín fólk sem gerir út á upplausn, örvæntingu og máttlausa reiði sem milljónir á milljónir ofan upplifa í Bandaríkjum samtímans, það veitir tilgang eftir sínu höfði, í stórveldisórum þar sem Ameríka verður aftur mikil, böndum er komið á ringulreiðina þar sem BLM hefur blossað upp og ekkert verður við Covid ráðið í landi einkarekinnar heilbrigðisþjónustu, „lögum og reglu“ til að berja á vinnandi alþýðufólki ef það er svo óforsjált að vera ekki hvítt á hörund, o.s.frv. Fasistana dreymir um að splundra verkalýðsfélögum, berja svart fólk og latneskt eða drepa það, lúskra á sósíalistum, banna starfsemi vinstrisinnaðra samtaka og andstæðinga rasisma. Þetta fólk hefur ekki áhuga á staðreyndum, því það veit hvað það vill. Lygaþvættingur, samsæriskenningar, gervivísindi, trúarblaður – hvað sem er – allt er betra en rökræður sem það hatar eins og pestina. Tvennt þarf til að þessum hópum vaxi verulega ásmegin: í fyrsta lagi þarf verkalýðs- og vinstrihreyfing að vera of vanmáttug til að standa í vegi þeirra, og í öðru lagi þurfa þeir á beinum stuðningi hluta auðvaldsins að halda, eins og raunin varð í Þýskalandi á sínum tíma. Slík sinnaskipti af hálfu bandaríska stórauðvaldsins eru þó ólíkleg nema pólitísk kreppa flokka þeirra dýpki enn verulega frá því sem nú er.

Hvað nú?

Trump fer úr Hvíta húsinu og í stað hans kemur gamall „miðjusinnaður“ drullusokkur af meiði frjálshyggjunnar sem mun setja „þjóðaröryggi“ á oddinn og bera því við að minna megi nú ekki vera eftir árásina á þinghúsið. Glamur um „þjóðaröryggi“ og „lög og reglu“ endurómar þá staðreynd að bandaríska ráðastéttin er uggandi yfir Black Lives Matter og í svipinn vissulega hundfúl yfir þeirri „móðgun“ og „niðurlægingu“ (bla bla bla) sem atburðirnir í Washington voru, en fýlan getur rokið fljótt úr þeim aftur. En þetta glamur verður yfirskin Demókrata, sem hafa nú fengið skýran meirihluta og hafa þar með ekkert til að fela sig á bak við, til að styrkja lögregluvaldið, auka persónunjósnir, skerða lýðréttindi, ráðast gegn verkalýðshreyfingunni, gegn vinstriöflum, gegn andstæðingum rasisma. AOC og öðrum „vinstrisinnuðum“ bjöllusauðum í röðum Demókrata verður alveg sópað til hliðar nema þá og því aðeins að þeir fylki sér á bak við þetta.

Í stuttu máli: Demókratar undir forystu Bidens munu gera mikið af því sama og Repúblikanar hefðu viljað gera í þeirra sporum og viðhalda þeim aðstæðum sem henta hægriskrílnum best. Lögreglumenn munu halda áfram að myrða svarta, en fjölmiðlar munu sýna því minni áhuga. Demókratar munu framfylgja sömu efnahagsstefnu og áður, gera hin ríku ríkari og hin fátæku fátækari, láta veikt fólk deyja drottni sínum ef það er auralítið og tryggja að sama skapi „öryggi“ þeirra sem hagnast á þessu öllu saman. Efnahagspólitík í anda frjálshyggju, business as usual, skapar kjöraðstæður fyrir öfgahægriöflin. Fátækt, húsnæðisvandi, gríðarlegt atvinnuleysi, einkavætt heilbrigðiskerfi, lögregluofbeldi, rasismi, þrældómsvinna myrkranna á milli og jafnframt algjör stöðnun eða afturfarir í launakjörum, og loks vonleysi og eiturlyfjaneysla er veruleiki sem milljónir Bandaríkjamanna þekkja af eigin raun.

Demókratar munu lítið aðhafast gegn öfgahægrimönnum og alveg óvíst að sá hluti þeirra sem fangelsaður hefur verið vegna þátttöku sinnar í uppþotinu í Washington þurfi að dvelja lengi í prísund. Þótt hægriöfgaöflin þurfi í bili að sleikja sárin og sæta skammvinnri öldu „laga og reglu“ gegn þeim, virðast þau líkleg til að sækja í sig veðrið þegar líður á forsetatíð Bidens.

Tveggjaflokkakerfið og verkalýðsbaráttan

Jafnhliða vexti öfgahægrisins er tilhneiging öfgamiðjunnar til meira valdboðs farin að verða augljós. Kapítalisminn hefur aldrei verið nein trygging fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum, öðru nær. „Lesser evil“ Demókrataflokksins er gömul lygasaga. Tveggjaflokkakerfið er hindrun í vegi þeirra sem vilja í alvöru bæta ástandið í Bandaríkjunum. Það er ekki afsprengi náttúrulegrar nauðsynjar, það er mannasetning og það er hægt að hrinda því. Fyrir hundrað árum kvað þar mjög að sósíalistum og glæstum baráttumönnum og skipuleggjendum, til dæmis Eugene V. Debs. Svipað getur gerst aftur. En til þess þarf átak. Hreyfingar á borð við Black Lives Matter eða um málefni kvenna skipta gríðarlegu máli, en veita ekki varanlegan, skipulagðan styrk eins og þarf andspænis auðvaldinu og hægrisinnuðum varaliðsafla þess. Það vantar sárlega flokk sem byggir á hagsmunum alls vinnandi fólks gegn auðvaldinu og sækir fyrst og fremst styrk til aukinnar stéttarbaráttu, stærri verkalýðsfélaga og baráttuanda meðal almennra félagsmanna í þeim.

Leiðin til að afstýra vexti fasismans og annarra öfgahópa hægrimanna er ekki sú að kjósa Demókrata, þaðan af síður Repúblikana, og raunar myndi ekki einu sinni nægja að kjósa vinstrisinnaðan flokk ef hann væri til. Fasismi er hreyfing og leitast við að ná valdi á götunum og á vinnustöðunum. Hann hlustar ekki á rök. Hann þarf að sigra og yfirbuga þar sem hann er, á götunum og á vinnustöðunum. Borgaraleg „lýðræðisleg“ stjórnmálaöfl hafa aldrei lyft litlafingri til að hindra fasista á götunum og ævinlega reynst svikul í baráttu gegn þeim yfirhöfuð, eins og reynsla þriðja og fjórða áratugar síðustu aldar vitnar best um. Alls staðar voru það stjórnmálaöfl verkalýðs sem beittu sér gegn uppgangi og yfirgangi fasista, þótt stefna krata og stalínísku kommúnistahreyfingarinnar hafi iðulega kostað alvarleg og afar dýrkeypt mistök í þeirri baráttu – stundum vegna glámskyggni og andúðar þeirra hvers á öðrum, en ekki síður vegna samstarfsvilja við borgaraleg öfl, sem gerðu svo ekki annað en að þvælast fyrir. Okkar stétt þarf að læra af gamalli sögu og sigrast á fasistum af eigin rammleik. Það er vonandi að stéttarsystkinum okkar í Bandaríkjunum takist á næstu misserum að kveða þetta pakk í kútinn og gera það skíthrætt og lítið í sér. Til þess að svo geti orðið þurfa verkalýðsöflin að beita sér kröftuglega á pólitísku sviði.