VG, stjórnarmyndunarviðræður og vinstrihreyfingin

Ég hef ekki í hyggju að skrifa um pólitík að nokkru marki á næstunni, hef öðrum hnöppum að hneppa. Hugrenningarnar hér á eftir munu því verða án framhalds að sinni, en hvað um það …

Ég kaus VG. Allir vissu að flokkurinn vildi ekki útiloka samstarf við íhaldið og Framsókn, en mér virtist ólíklegt að til þess kæmi. Nú er að koma á daginn að forysta flokksins hefur einmitt hug á þessu, og fyrri þreifingar virðast hafa verið leikrit að miklu eða öllu leyti. Retóríkin er fljót að koma hjá þessu fólki; þetta kváðu vera „sögulegar sættir um uppbyggingu innviða“ og til vitnis um vilja til að reyna eitthvað „nýtt“ í staðinn fyrir þrefið síðustu árin.

Forysta VG segir að íhaldið sé enn þá höfuðandstæðingurinn; það á bara að skapa sögulega sátt á þessu stigi um uppbyggingu innviða. Nú er það ekki flókið að maður sem leitar samninga við andstæðing – sérstaklega ef um „höfuðandstæðinginn“ er að ræða – reynir að baktryggja sig eftir fremsta megni, huga að styrk sínum og knýja svo fram eins hagstæða niðurstöðu og unnt er.

Og vert er að minnast þess að andstæðurnar sem um er að ræða snúast á endanum ekki um einberan hugmyndafræðilegan áherslumun, heldur félagslegar andstæður sem pólitískur ágreiningur sprettur af og öðlast inntak af. Landlæknir lýsti því yfir nú á dögunum að aðgangi að heilbrigðisþjónustu sé mjög misskipt og geðheilbrigðisþjónusta „nánast í molum“. Stór hluti þjóðarinnar lætur sig ekki einu sinni dreyma um það lengur að eignast húsnæði og jafnframt er leigumarkaðurinn algjör frumskógur. Andstæður fátæktar og ríkidæmis hafa almennt aukist verulega á síðustu árum og áratugum, einnig hérlendis.

Það er óþarfi að tíunda frekari dæmi hér. En hafa ber í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um það félagslega niðurrif sem hér hefur átt sér stað um langt árabil og því ræður engin hending, heldur stefna flokksins og þeirra félagsafla sem hann starfar fyrir. Hefur flokkurinn skipt um skoðun? Liggur fyrir stefnubreyting? Höfum við öll eða VG eitthvað í höndunum um vilja flokksins til að söðla um og bæta lífskjörin í landinu og tryggja til dæmis betra ástand í húsnæðismálum, stórbættan aðgang að heilbrigðisþjónustu, o.s.frv.? Neibb. Ekki neitt slíkt liggur fyrir … Æ, afsakið, ég gleymdi því: lítils háttar kosningaglamur um heilbrigðismál. En Sjálfstæðisflokkurinn sagðist líka vilja setja pening í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins fyrir ári síðan, en fékk þegar til kom samstarfsflokk sinn til að leiða einkavæðingaráform á því sviði. Eðlilega. Það er stefna flokksins.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert gefið eftir á stefnulegu plani, og það er einmitt stefna hans, frjálshyggjan, sem veldur fólki búsifjum. Þessi staðreynd ein sér nægir til þess að manni verður spurn hver grundvöllur hinna sögulegu sátta eigi að vera.

En svo er annað. Hvað með bakland VG, vinstrihreyfinguna? Hún logar – alveg fyrirsjáanlega – í deilum vegna vilja VG-forystunnar til að hefja þetta stjórnarsamstarf við auðvaldsöflin. UVG álykta gegn forystunni, tugir manna yfirgefa flokkinn, lojalistarnir í flokknum standa í þrasi við aðra vinstrimenn sem eru hundfúlir yfir þessu. Er þetta að ganga sterkur til samninga við meintan „höfuðandstæðing“? Að ala á sundrungu í vinstrihreyfingunni fyrir eitthvað sem enginn veit hvað er? Því við höfum ekki hugmynd um hvað „styrking innviða“ eiginlega þýðir. Af hverju vill forysta VG koma svona fram við allt sitt bakland? Hvers vegna segir hún okkur ekki af hverju við eigum að styðja þetta samstarf? Hvers vegna skýrir hún ekki fyrir okkur af hverju það sé mikilvægt og hvaða málum hún hyggst ná fram?

Nærtækast er að álykta að hún geti það ekki vegna þess að enn einu sinni er ekkert í kortunum um þau mál sem skipta vinnandi almenning í þessu landi mestu máli … Það rímar við þá staðreynd að engin stefnuleg eftirgjöf liggur fyrir frá hendi auðvaldsaflanna. Þetta er sem sé ekki eitthvað „nýtt“, heldur þvert á móti beint framhald stéttasamvinnunnar sem varð ofan á fyrir 30 árum og hefur gert það mögulegt að keyra í gegn frjálshyggjuprógrömm, einkavæðingu og niðurskurð. Og eins og venjulega eru það vinstriöflin sem slaka til við hægriöflin – ekki öfugt.

VG eru þegar farin að tapa fylgi. Það eina sem gæti afstýrt því að VG gjaldi afhroð í næstu kosningum væri ef flokkurinn og stjórnin áorkaði breytingum sem breyttu í raun lífi fólks í landinu til batnaðar, m.ö.o. ef flokkurinn gerði það sem fólk kaus hann til að gera. Það mun aldrei gerast í þessu samstarfi. Sjálfstæðisflokkurinn kann að semja við andstæðinga og mun tryggja eftir fremsta megni að VG taki skellinn.

Þessi bjálfaskapur VG forystunnar gerir samt ekki endilega svo mikið til. Það er allt í lagi að fólk geri sér grein fyrir því að það þarf annað afl til vinstri við hann ef einhverju á að breyta til hins betra. Afl sem miðar ekki starf sitt við stéttasamvinnu og baktjaldamakk við auðvaldið, heldur baráttustefnu, ekki síst utan þings. Takmarkanir þingræðisins hafa orðið einkar ljósar síðustu árin, og flokkar sem miða allt við þær takmarkanir hafa ekki komið að haldi í streðinu við auðvaldsöflin.

Það er hins vegar gremjulegt að VG skuli beinlínis rétta íhaldinu hjálparhönd. Við höfðum íhaldið fyrir skemmstu í þeim sporum að það var þægilegra að eiga við það en endranær. Klofið, með lítið fylgi og minna sjálfstraust en venjulega, skandalarnir búnir að gera flokknum erfitt fyrir. Ég sé ekki betur en að það hefði verið tilvalið fyrir VG að segja: „Nei, við nennum ekki að ræða við ykkur. Þið eruð samfélagsvandamál, starfið bara örlitlum minnihluta samfélagsins til hagsbóta og glímið við slíkan spillingarvanda að það er varla hægt að starfa með ykkur í stjórn hvort sem er.“

Það hefði mátt reyna að einangra íhaldið og láta það engjast, helst árum saman, í uppdráttarsýki, vaxandi forystukreppu og innbyrðis argaþrasi um leiðir út úr vanda sínum, o.s.frv. Ég get ekki séð að VG beri sérstök skylda til að leysa stjórnarkreppuna hér og nú. En flokknum ber skylda til að fara með andstæðing sem andstæðing. Þetta Nýsköpunarrugl hjálpar bara auðvaldsöflunum, sem verða firna sterk í þessari ríkisstjórn. Þess vegna verður hún líka andstæðingur vinnandi fólks í þessu landi, og VG verður hinu megin víglínunnar.