Moldviðrin geisa

Það getur nú verið fjári misveðrasamt í pólitík eins og náttúrunni, og stundum gengur til að mynda á með afskaplega þrálátu moldviðri svo varla sést nokkur glóra. Að stríð sem Rússar heyja í Úkraínu verði tilefni máttarvalda á Vesturlöndum til að blása upp slíkum óhroða er umhugsunarefni út af fyrir sig: standa þau ekki annars utan þessara átaka? Hvers vegna er ekki hægt að notfæra sér fjarlægð frá atburðum til að skoða heildarsamhengi þeirra, rökræða það heldur stillilegar í „lýðræðislegum“ anda, reyna að skilja það, taka svo upplýsta afstöðu? Hvers vegna allan þennan ofstopakennda æsing? Ástæðan er sú að Vesturlönd standa raunar ekki utan þessarar atburðarásar. Afstaða vestrænna auðvaldsríkja liggur vitaskuld fyrir. Þau styðja stjórnina í Kænugarði og styðja hana nánar tiltekið með vopnasendingum og einhliða fjölmiðlaherferð.

Öll saga Atlantshafsbandalagsins og hernaðarsaga aðildarríkja þess er ljót og málstaður þess vondur, og afskipti bandalagsins af Úkraínu eru engin undantekning. Moldviðrinu er beinlínis ætlað að koma í veg fyrir gagnrýna skoðun á samhengi atburða og hræða fólk frá því að gagnrýna þátt bandalagsins, skoða umsvif þess á svæðinu, spyrja hvort það sé vænlegur aðili til að koma á varanlegum friði. Það er því ekki úr vegi að byrja þessar athugasemdir á því að skoða innihald óhroðans sem Vesturlönd þyrla upp.

(1) Eitt af því sem þessir andstæðingar okkar vinstrimanna tilfæra er ásökun um „hvaðmeðhyggju“. Þarna er átt við afbrigði þess sem á íslensku hefur löngum verið kallað að drepa málum á dreif. Þegar þessum merkimiða er klínt á vinstrimenn á Vesturlöndum sem eru svo „ófyrirleitnir“ að gagnrýna Atlantshafsbandalagið er átt við þetta: þeir geti aldrei einfaldlega fordæmt innrásina heldur prjóni alltaf við einhverjum málalengingum og flækjum um hliðstæðar aðgerðir annarra ríkja en Rússlands, svo á endanum sé vart hægt að segja að þeir fordæmi innrásina „í raun og veru“. Að baki þessari ásökun virðist einfaldlega búa sú hugsun að ekki sé unnt að réttlæta ofbeldi af hálfu x með tilvísun til ofbeldis sem y hefur einnig haft í frammi – það er einfaldlega óréttmætt hvað sem verkum y líður.

Þetta er vitaskuld alveg rétt eins og við getum séð af einföldu dæmi. Setjum svo – bara í gamni, alveg út í bláinn – að við komumst á snoðir um að valdsmaður sem við skulum kalla Bjarna Benediktsson svíki undan skatti. Ef einhvern skyldi langa til að fordæma framferði hans, þarf hann ekki að setja á langar tölur um annað fólk sem einnig hefur komið fjármunum sínum undan, og þaðan af síður er hægt að afsaka Bjarna með tilvísun til þess að fjöldamargir aðrir geri þetta líka, því það skiptir nefnilega engu máli: Bjarni á bara ekki að haga sér svona. Hann á að borga skatt rétt eins og við launafólkið sem höfum flest hver ekki einu sinni möguleika á skattsvikum.

En við vorum að tala um stríðið í Úkraínu. Hvað það snertir er vert að gæta að því hvar og hvenær þessi ásökun um „hvaðmeðhyggju“ er sett fram: því hún er notuð gegn vinstrimönnum sem hafa einmitt fordæmt innrásina, en lýsa sig jafnframt mótfallna hernaðarumsvifum Atlantshafsbandalagsins á svæðinu. Álit þeirra sem beita ásökunum um hvaðmeðhyggju svona er þannig í stuttu máli að ekki sé hægt að taka mark á andstöðu fólks við stríð Pútíns nema þá og því aðeins að þeir fjalli jafnframt ekki um hugsanlega ábyrgð annarra en Pútíns á því ástandi sem upp er komið í þessu heimshorni.

Þetta er vitanlega ekki sama röksemd og áður var rakin. Raunar er þetta yfirhöfuð ekki gild röksemdafærsla, heldur innantómur orðavaðall og hundakúnstir. Stríð Pútíns er svo sannarlega stríð Pútíns, og án nokkurs vafa afdrifarík ákvörðun. En pólitískt ástand á svæðinu ræðst engu að síður af fleiri þáttum en ákvörðun Rússlandsforseta einni sér, og hvers konar ákvarðanir um hvað eigi að gera í málum, hvaða afstöðu eigi að taka, o.s.frv. hljóta að miðast við mat á hinu pólitíska ástandi í heild og aðdraganda þess. Ef það ætti að koma því heim og saman að vinstrisinnaðir gagnrýnendur Atlantshafsbandalagsins séu raunar stuðningsmenn Pútíns og rússnesku innrásarinnar þyrfti að bæta við aukaforsendu sem aldrei er nefnd. Sú forsenda er að „raunveruleg“ andstaða við Pútín hljóti að vera stuðningur við Atlantshafsbandalagið eða alltént þögult samþykki við umsvifum þess á svæðinu.

Þannig má ráða af gloppu í „röksemdinni“ sjálfri að átökin verði naumast rædd án þess að huga að þætti bandalagsins. Henni er ætlað að fela þá innantómu og augljósu hræsni að fordæma það sem Rússar nú gera – að ráðast inn í annað fullvalda ríki – en fordæma ekki sama verknað þegar Bandaríkin framkvæma hann með margföldum mannlegum fórnarkostnaði; og umfram allt er henni ætlað að drepa á dreif annarri spurningu sem snýr ekki aðeins að þeim sem eiga í stríðsátökum, heldur einnig að okkur Vesturlandabúum sjálfum: er Atlantshafsbandalagið hluti lausnarinnar eða hluti vandans?

(2) Annar þátturinn er kenningin um óheilaga þrenningu. Þegar rússneski herinn hóf innrásina barst óðara yfirlýsing frá Bandaríkjaforseta þar sem sagði að hún hafi verið „unprovoked“. Það er spurning hvernig eigi að skilja slíkt orðalag, en Biden virðist eiga við að ekkert hafi áður átt sér stað sem skýrt geti ákvörðun Pútíns, og hún sé því tekin upp úr þurru. Stærri fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa síðan, af einhverjum völdum, gert þetta að einkunnarorðum sínum í allri umfjöllun um stríðið: það sem máli skiptir er aðeins eitt, nefnilega sú staðreynd að Pútín tók þessa ákvörðun án tilefnis, upp úr þurru; allar frekari vangaveltur um ábyrgðina á því hvernig málum er nú komið eru skoðaðar sem einhvers konar svik við Úkraínubúa, jafn undarlegt og það nú er.

Eftir þessari hugsun, í anda Bidens, verður ákvörðun Pútíns því ekki skýrð nema með því að skyggnast í myrkviði sálarlífs hans … en viti menn! Til allrar hamingju liggur niðurstaðan úr þeim skuggalega leiðangri einmitt þegar fyrir! Meginatriðin eru sem hér segir: Pútín er (1) geðveikur; (2) vondur; og (3) þríeinn eins og almættið, því hann er nefnilega í alvörunni Hitler, eins og Saddam Hussein var líka forðum.

Það er aldeilis ekkert slor að hafa svona vandaða og trausta kenningu um orsakir hildarleiksins; og hún er svo áreiðanleg að það er ekki aðeins óþarfi heldur beinlínis ljótt að skoða hana nánar. Okkur er einfaldlega ekkert að vanbúnaði að vinda okkur óðara í matið á stríðinu, og þar ber að halda sig við að skoða það í siðferðilegu ljósi – umfram allt ekki pólitísku ljósi eða efnahagslegu, enda gæfi það tilefni til alls konar athugana og deilna sem leiða ekki endilega til „réttrar“ niðurstöðu. Við blasir að frá siðferðilegu sjónarmiði er ákvörðun Pútíns ekki aðeins ámælisverð, heldur blátt áfram forkastanleg, auk þess sem hún fer í bága við alþjóðalög. Hvaða þýðingu skyldi það nú hafa að fella siðadóma um gjörðir geðveiks illmennis, getur hann talist siðferðisvera, er hann ábyrgur gjörða sinna? Það hefur vitanlega ekki aðra þýðingu en þá að manninn verði að stoppa í því að gera frekari skaða. Þess vegna kemur ákallið svo umsvifalaust: Meiri framlög til hergagnaframleiðslu! Meira af vopnum! Meiri viðbúnað af hálfu Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess!

Óþarfi svo sem að taka það fram … en látum aðrar meðfylgjandi hugmyndir um ríkisútgjöld fljóta með sisvona í gamni: skítt með almenningsheilbrigði, niður með menntun, bótakerfi og allan slíkan hégóma. Það kostar nefnilega pening. Öll er þessi hugsun afar skynsamleg, og svo heppilega vill til að svona ráðagerðir koma óligörkum vestræns kapítalisma ljómandi vel.

Vitanlega halda menn áfram að prjóna við þessa hugsun af öllu því hyggjuviti sem þeir geta kreist fram, sumir af veikum mætti, og hefur verið stungið upp á því að einhver í Guðs bænum myrði Pútín, enda verði heimurinn þá loks betri. Þannig mæla siðapostular vorra tíma; þeir vita að boðorðin binda aðeins hendur andstæðinga sinna, ekki þeirra sjálfra. Aðrir vitringar, eins og til dæmis hinn ábyrgi og trausti vinur Vesturlanda, Selenskí, forseti Úkraínu, hvetja til þess að Atlantshafsbandalagið tryggi flugbann yfir Úkraínu,þ.e. blandi sér beinlínis í vopnaskakið sjálft þótt augljóst virðist að það leiði til kjarnorkustríðs. Joe Biden kveðst að vísu ekki geta orðið við þessari bón en er svo elskulegur að dæla vopnum í Selenskí til að draga átökin á langinn, enda deyja þá fleiri rússneskir og úkraínskir hermenn, svo og úkraínskir borgarar, og allir geta verið ánægðir. Bandaríkjastjórn borgar og úðar í sig poppkorni.

(3) Enn er ónefndur alveg ómissandi uppistöðuþáttur í moldviðrinu. Ef þvættingurinn sem ég hef rakið hér á undan á að hafa tilætluð áhrif þarf fólk helst að vera skelkað og í uppnámi, þá virkar ruglið betur. Til að renna stoðum undir þá kenningu um orsakir hildarleiksins að Pútín sé sturlað illmenni, sprottið alskapað úr gömlu hasarblaði, var strax tilfærð meint hótun hans um beitingu kjarnorkuvopna. Pútín hafði nefnilega sagt í ávarpinu sem var sent út í þann mund að innrásin hófst að öll hernaðarafskipti aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hefðu þegar í för með sér „afleiðingar án fordæma í ykkar sögu“. Franski utanríkisráðherrann, Jean-Yves La Drieu, ansaði þessu í hendingskasti og minnti á að Rússar væru ekki eina kjarnorkuveldið … jafn gáfulegt og það nú er, því naumast hefur maðurinn haldið að Pútín vissi það ekki. Orð Pútíns hafa digurbarkalegan og harkalegan tón, þau eru stríðstal. En hvað skyldu þau merkja? Af þeim má auðveldlega ráða að ekki sé verið að hóta því sérstaklega að beita kjarnorkuvopnum. Gleymum því ekki að beiting þeirra í stríði væri einmitt ekki fordæmalaus, eins og Pútín veit jafnvel og við öll; hann veit líka mætavel hvaða ríki hefur beitt þeim, hvar og hvenær. Orð hans merkja einfaldlega þetta: „Ef einhver abbast upp á Rússa verður hann sko barinn í buff,“ eða eins og þessi hugsun er líka stundum orðuð: „Pabbi minn er lögga“. Þetta er ekki merkileg hugsun og orðin ekki heldur. Pútín hafði tekið ákvörðun um að hefja stríð og ekki varð aftur snúið; hann stendur við ákvörðun sína og lætur ekkert röfl stöðva sig í að ná markmiðum sínum. Önnur yfirlýsing nokkrum dögum síðar merkir nákvæmlega það sama. Ef einhver ræðst á Rússland verður því svarað af fullri hörku, með kjarnorkuvopnum ef því er að skipta. Í stuttu máli: árásum verður svarað.

Slegið er upp getgátum um að Pútín sé ofsóknarbrjálaður og einangraður, og okkur boðið að draga þá ályktun af … hérnahér, ýmsum ljósmyndum af manninum. Það fyrirgefst vonandi þótt ég hirði ekki að ræða slíka heimsku nánar. En einnig er því slegið upp að „sérfræðingar“ telji að Rússar kunni að hafa fyrirætlanir um innrás í Litháen og hugsanlega önnur ríki: allt tilhæfulausar getgátur út í loftið. En Pútín ætlar að nota efnavopn, helvítis beinið! Þessi ásökun kom fram þegar Rússar höfðu fundið bandarísk lífræn vopn í Úkraínu. Hvað hafa menn svo fyrir sér í því að Rússar hyggist koma höggi á Úkraínuher – en einkum þó sjálfa sig – með beitingu efnavopna? Ekki neitt nema fullyrðingar bandarískra „sérfræðinga“. Fjölmiðlarnir þegja hins vegar þunnu hljóði um fund Rússa, og virðast ætlast til þess að fólk trúi því án athugunar að það sé eintóm Rússalygi. Það ættum við ekki að gera, og síst í ljósi þess sem Tulsi Gabbard hefur dregið fram í dagsljósið. Við ættum ekki heldur að trúa öllum málflutningi Selenskís og úkraínskra stjórnvalda án athugunar, án fjölmiðla sem reyna að gegn því hlutverki sem ósköp alvanalegur borgaralegur lýðræðisskilningur ætlar þeim.

Hugsum nú, gott fólk. Og minnumst þess að Bandaríkin hafa aldrei komið að nokkrum átökum án þess að beita fyrir sig lygum, falsfréttum og blekkingavaðli. Skemmst er að minnast Íraksstríðsins þar sem þetta blasir við. Það sakar varla að setja það á bak við eyrað: fjölmiðlar sem gera ekki annað en að enduróma bandaríska utanríkisstefnu eru ekki áreiðanlegt haldreipi til að komast hjá falsfréttum. Við komumst ekki hjá því að nota eigin dómgreind. Réttilega er vakin athygli á því hvernig þjarmað hefur verið að fjölmiðlun og fréttamennsku í Rússlandi, slíkt er ills viti. En gætum að því að Selenskí hefur gripið til hliðstæðra ráðstafana í Úkraínu til að hafa fulla stjórn á fréttum af stríðinu, og það er einmitt málflutningur stjórnar hans sem er öll uppistaðan í frásögnum vestrænna fjölmiðla. Þetta er fyrir neðan allar hellur. Samkvæmt alvanalegum borgaralegum lýðræðisskilningi hafa fjölmiðlar því hlutverki að gegna að veita okkur áreiðanlegar upplýsingar um staðreyndir mála og ganga úr skugga um á hverju raunar gangi þegar skrítin tíðindi fara að berast. Þessu hlutverki bregðast stórir fjölmiðlar á Vesturlöndum og kjósa fremur að gerast einfaldar málpípur bandarískrar utanríkisstefnu, flytja okkur þvaður sem þarlend stjórnvöld vilja koma á framfæri. Samtímis er mikið gert úr upplýsingaóreiðu sem fylgi Rússum. Því er ekki að neita að þeir ljúga … líka. Alls staðar er almenningi sýnd ótrúleg fyrirlitning með „fréttamennsku“ og „fjölmiðlun“ sem ekki er annað en einhliða áróður á svo heimskulegu plani að þeir sem bera ábyrgð á honum hlytu að skammast sín … ef þeir hefðu minnsta snefil af stolti, metnaði og áræði sem fréttamiðlarar.

Mannleg vinna í fræðum Marx, 1. hluti

Vinnuhugtakið er engan veginn sjálfgefið. Framleiðslustarfsemi manna getur verið af margvíslegasta tagi og spannar allt frá leirkerasmíði Assýringa að fornu eða púðurframleiðslu Kínverja á 13. öld til rauðvínsgerðar í Bourdeaux, hljómtækjaframleiðslu í Japan eða kartöfluræktar í Þykkvabæ, og þannig mætti endalaust telja áfram. Ef við reyndum að hugsa okkur mengi allra hinna hluttæku vinnuferla yrði því fyrir okkur afskaplega fjölskrúðugt safn, og reynsluheimur framleiðendanna að sama skapi gjörólíkur, eins og nærri má geta. En þar að auki má hugsa sér að nálgast efnið eftir ýmiss konar fræðilegum leiðum eða nálgunum. Það er því ekki vandalaust að ræða um vinnu eða framleiðslu án frekari skýringa. Marx fer ákveðna leið í þessu efni sem miklu varðar að skilja.

Sértak framleiðslunnar nefnir Marx gjarnan mannlega vinnu í síðari ritum sínum.[1] Kjarni þess er þegar til staðar í Parísarhandritunum (1844) og leikur þar mikilvægt hlutverk, en hugtakakerfi hans um gagnrýni þjóðhagfræðinnar er þá enn á algeru frumstigi, og orðið vinnu hefur hann í skilningi þjóðhagfræðinnar að segja má: hann á við firrta vinnu og hið sögulega verkefni öreiganna er þess vegna, líkt og í Þýsku hugmyndafræðinni (1845-1846) afnám vinnunnar.[2]

Framsetning hans á sértaki mannlegrar vinnu er orðin miklu skýrari í Auðmagninu (1867), en þar segir hann:

Vinnan er umfram allt […] ferli þar sem maðurinn miðlar efnaskiptum sínum og náttúrunnar um athafnir sínar, reglubindur þau og hefur á þeim taumhald fyrir tilstuðlan eigin athafna. Hann tekst á við efnivið náttúrunnar sem náttúruafl. Hann virkjar náttúruöflin sem búa í líkama hans sjálfs, handleggi, fætur, höfuð og hendur, til þess að gera efnivið náttúrunnar að sínum, á formi sem lagað hefur verið að þörfum hans. Með þessari hreyfingu verkar hann á hina ytri náttúru og breytir henni og breytir með þessum hætti jafnframt sínu eigin eðli. Hann laðar fram möguleikana sem blunda í náttúrunni, og setur leik náttúruaflanna undir yfirráðavald sitt. […] Vinnuferlið, eins og við höfum nú kynnt það með tilliti til einfaldra og sértækra þátta þess, er markmiðsbundin virkni sem miðar að framleiðslu notagilda. Það er aðlögun þess sem til er í náttúrunni að þörfum mannsins. Það er altækt skilyrði efnaskipta manns og náttúru, ævarandi náttúruþvingað skilyrði mannlegrar tilveru, og er þess vegna … sameiginlegt öllum samfélagsformum sem menn lifa við.[3]

Það er vert að staldra nokkuð við og skoða ólíkar hliðar á þeirri hugmynd um mannlega vinnu sem kemur fram í þessum orðum.

Fyrst er þess að geta að Marx hugsar sértak vinnunnar sjálft sem sköpun notagilda. Það er sem sé skilgreiningaratriði um alla vinnu að hún miðar að því að skapa notagildi; menn geta tekið sér allt mögulegt fyrir hendur, en vinna ekki að nauðsynjalausu; fyrirhuguð niðurstaða hvers vinnuferils, afurðir vinnunnar, eru því hlutir sem svala einhverjum þörfum manna á hverjum tíma. Þetta virðist eiga við um alla framleiðslustarfsemi, hvar og hvenær sem er. Í þessu vinnuhugtaki eru sérteknir þættir sem einkenna alla vinnu, alltaf og ævinlega, hvert sem samfélagsformið kann að vera, og fyrst og fremst er því slegið föstu að hún er alltaf ætluð til þess að svala einhvers konar þörfum. En ef nánar er að gáð er raunar ekki sértekið frá öllu sögulegu eða félagslegu samhengi, því vinna manna hlýtur raunar alltaf að vera félagsleg starfsemi, hvernig sem félagslegri umgjörð hennar er svo hagað.

Í framleiðslu verka menn ekki einungis á náttúruna, heldur og hverjir á aðra. Þeir framleiða aðeins með því að starfa saman á ákveðinn hátt og skiptast á störfum. Til þess að framleiða koma þeir á ákveðnum tengslum og afstæðum sín á milli, og verkanir þeirra á náttúruna, framleiðslan, er bundin þessum félagslegu tengslum og afstæðum.[4]

Með nákvæmara orðalagi eru sérteknir þeir sameiginlegu þættir vinnuferla sem notagildasköpunar sem ekki binda þá einstökum sögulegum framleiðsluháttum. Það er því er undirskilið að vinnan sé alltaf félagsleg starfsemi, hún er alltaf virkni (einhvers konar) félagsveru. Í öllum hluttækum, raunverulegum vinnuferlum hafa menn skipað sér um framleiðsluna á einhvern hátt og þar hefur því einnig myndast einhver tiltekin afstaða þeirra hvers til annars, hvernig sem henni er annars nákvæmlega farið hverju sinni.

Gætum einnig að hinni ríku áherslu sem Marx leggur á að vinnan sé tilgangsferli, og það undirstrikar hann enn frekar með þessum orðum:

Kóngulóin hefst líkt að og vefari, og býfluga hólfar hunangskúpu sína þannig að margur byggingameistarinn mætti blygðast sín. En það sem skilur á milli slakasta byggingameistarans og snjöllustu býflugunnar er að hann byggir herbergin í huganum áður en hann mótar þau í vax. Í lok hvers vinnuferlis birtist niðurstaða sem vinnumaðurinn hafði þegar hugsað sér við upphaf þess, og var þannig þegar til staðar í hugsýn. Maðurinn áorkar ekki aðeins því að formbreyta náttúrulegum efnivið, heldur raungerir hann sín eigin markmið í efniviðnum. Og þetta er markmið sem hann er sér vitandi um, það ræður því með strangleika lögmálsins hvernig hann hagar starfi sínu, og hann verður að beygja vilja sinn undir það.[5]

Í vinnunni raungerir maðurinn markmið sín og skapar nýjar afurðir. Til þess þarf hann að geta beitt sig umtalsverðum aga, hafa hemil á hvers kyns tilfallandi löngunum, tilfinningum, hvötum, o.s.frv. og halda sig við að setja af stað viðeigandi orsakakeðju.[6] Þannig mætti segja sem svo að vinnan sé tæknilega rökvísleg athöfn, og Jürgen Habermas hefur greint hana sem slíka frá athöfnum sem fela í sér það sem hann nefnir samskiptarökvísi.[7] Naumast er þetta alveg úr lausu lofti gripið, því framkvæmd vinnuferlis hlýtur einmitt að vera hagað þannig að hún skili réttri niðurstöðu, hlutnum sem framleiða á. En það sem fyrir Marx vakir er þó vel að merkja ekki að draga einfaldlega fram mun ólíkra kjörmynda („ídealtýpískan“ greinarmun), almenn flokkunarfræði, heldur að skilja verufræðilega þýðingu vinnunnar. Keppikefli hans er í minni mæli það að flokka athafnir manna niður í ólíkar sortir og greina vinnuathafnir almennt frá öðrum tegundum athafna en að varpa fram kenningu um það hvernig veruleiki vinnunnar hefur þróast í samspili við samfélagshætti manna.

Þarfir manna eru skilgreiningaratriði um vinnu, sögðum við. En þær eru ósköp prósaískur veruleiki og raunar af margbreytilegasta tagi; það er auðsætt að þær hafa tekið miklum breytingum í sögunnar rás. Við teljum okkur þurfa æði margt sem enginn hafði minnsta hugboð um á fyrri tímum, og til dæmis kvað vera illt að hafa engan snjallsíma. Ekki verður samt greint af heimildum að Júlíus Sesar hafi vanhagað um slíkt apparat þegar hann herjaði á Galla, svo dæmi sé nefnt; og jafnvel þótt honum hefði einhverju sinni orðið hugsað til þess að gott væri að geta haft samband alveg á stundinni við Pompejus í Róm – eða kannske einhverja menn aðra – hefði það aðeins verið hugboð hans, ekki áþreifanleg þörf sem hægt hefði verið að bregðast við, t.d. með vinnu. Við getum líka orðað þetta öðruvísi og sagt sem svo að til þess hafi ekki verið neitt framleiðsluafl.

Þessi sögulega vídd er einmitt alltaf undir hjá Marx, einnig þegar hann skilgreinir sértök sín, t.d. það sértak mannlegrar vinnu sem við erum hér að skoða. Hann leitast því umfram allt við að skoða vinnuna sem sköpun, virka umbreytingu manns og náttúru. Á þeirri sköpun má greina tvær meginhliðar, þ.e. nytjahorf og mennskuhorf sem við getum svo kallað.[8] Um nytjahorf vinnunnar höfum við þegar fjallað – menn vinna ekki út í bláinn, heldur til að svala þörfum sínum, búa til notagildi, þ.e. breyta náttúrulegum hlutum í nytjahluti. Þannig felst í vinnuferlinu sköpun hluta sem ekki voru til staðar við upphaf þess. Leiða má að því líkur að fyrsta viðleitni hins verðandi manns hafi verið næsta fálmkennd og lítils megnug, en í rás þróunar mannsins vindur fiktið upp á sig, og smám saman er öllu hinu náttúrulega umhverfi mannsins á jörðinni breytt í gríðarlegum mæli.

En þetta nytjahorf vinnunnar segir raunar ekki hálfa söguna. Vinnan, „efnaskipti manns og náttúru“, eins og Marx lýsir henni tíðum, er ekki aðeins sköpun hluta og umbreyting ytri náttúru, því maðurinn breytir raunar sjálfum sér, skapar sjálfan sig á vissan hátt, fyrir milligöngu vinnunnar. Þetta er mennskuhorf vinnunnar, og það má svo aftur tvígreina. Annars vegar breytir vinnan einstaklingnum sem hana stundar og er af hans hálfu meðvituð starfsemi þar sem hann beislar náttúruna í sjálfum sér (tilfinningar, hvatir og langanir, eins og áður sagði), þroskast og eykur mennt sína, ef svo má segja, jafnhliða því að hann sveigir hina ytri náttúru undir vald sitt. Hins vegar er vinnan raunar alltaf félagslega skipulögð á einhvern hátt, virkni félagsveru, og tekur því jafnan til einhvers háttar mannsins á að skipa sér í afstöðu til annarra manna, eins og áður var getið.

Drögum saman í stuttu máli það sem fram er komið til þessa: (a) Vinnan er sköpun hluta, þ.e. notagilda. (b)(i) Vinnan breytir hinum vinnandi einstaklingi sem beislar náttúruna í sjálfum sér jafnframt því sem hann nær vaxandi tökum á hinni ytri náttúru. (b)(ii) Vinnan er jafnframt ákveðinn háttur manna á að skipa sér í afstöðu til annarra manna, félagsleg starfsemi.

En þetta margbrotna hugtak mannlegrar vinnu leikur einnig mikilsvert gagnrýnið hlutverk í fræðum Marx, einkum í áformi hans um gagnrýni þjóðhagfræðinnar, allt frá því að hann lagði fyrst drög að því í Parísarhandritum sínum, árið 1844. Þannig er engin hending að Marx vék líka að því sérstaklega í Auðmagninu (1867) í kafla sem þegar hefur verið vitnað til. Og í inngangstexta frá 1857 – mitt á milli Parísarhandritanna og Auðmagnsins – sem Marx ætlaði til birtingar í Drögum að gagnrýni þjóðhagfræðinnar (bók sem kom svo út tveimur árum síðar með frægum formála sem einnig verður raunar vitnað til hér á eftir) er einnig fjallað um það. Þar er þetta gagnrýna hlutverk sem ég minntist á afar skýrt.

Þegar við ræðum um framleiðslu er þannig ævinlega átt við framleiðslu á tilteknu stigi samfélagsþróunar, framleiðslu einstaklinga í samfélagi. Það kann því að virðast svo að til þess að færa framleiðslu í tal verðum við annað hvort að rekja hin ýmsu skeið hins sögulega þróunarferlis, eða lýsa öðrum kosti yfir því að við tökum til rannsóknar eitt tiltekið sögulegt tímabil, svo sem til dæmis borgaralega framleiðslu nútímans, sem raunar er umfjöllunarefni okkar. Öll tímaskeið framleiðslunnar hafa þó ákveðin samkenni, sameiginleg hugtök. Framleiðslan almennt er sértak, en vit í því að svo miklu leyti sem það dregur fram og skilgreinir hinar sameiginlegu hliðar svo komist verði hjá endurtekningum. Og þó er þetta almenna hugtak sjálft, eða hið sameiginlega horf sem samanburður hefur leitt í ljós, margskipt og klofið í veru hinna ólíku einkenna þess. Sum einkennin er að finna á öllum tímaskeiðum, önnur eru sameiginleg nokkrum tímaskeiðum. [Sum] einkennin eru sameiginleg hinum nútímalegustu og hinum fornustu. Framleiðslan er óhugsandi án þeirra. En […] þá þætti sem ekki eru almennir og sameiginlegir verður að greina frá hinum sem gilda um framleiðsluna sem slíka, þannig að í einingunni, sem leiðir af þeirri staðreynd að frumlagið, mannkynið, og andlagið, náttúran, er hið sama, týnist eðlismunurinn ekki niður. Öll viska þeirra nútíma hagfræðinga sem sýna fram á að ríkjandi samfélagsafstæður séu einn eilífðar samhljómur liggur í þessari gleymsku. Til dæmis er engin framleiðsla möguleg án framleiðslutækis, þó ekki sé nema handarinnar. Hún er ekki möguleg nema á grundvelli liðinnar, upphlaðinnar vinnu, eins þótt sú vinna sé ekki annað en hæfnin sem endurtekin æfing færir höndum villimannsins. Auðmagn er meðal annars framleiðslutæki, svo og liðin, efnisgerð vinna. Þar af leiðandi eru auðmagnsafstæðurnar eilífar og algildar – að því tilskildu að maður leiði hjá sér einmitt þær sérstöku eigindir sem einar gera „framleiðslutæki“ og „upphlaðna vinnu“ að auðmagni.[9]


[1] Ekki má slá þessu saman við það sem Marx nefnir „sértæka vinnu“, grundvöll skiptagildis vörunnar. Að því verður nánar vikið í síðari hluta þessara hugleiðinga.

[2] Sjá um þetta C.J. Arthur, Dialectics of Labour: Marx‘s Relation to Hegel, Oxford 1986.

[3] Marx, Capital, 1. bindi, Harmondsworth 1976, bls. 283, 290; sjá einnig bls. 133. Das Kapital I, Berlín 1962, bls. 192, 198, 57.

[4] Marx, „Launavinna og auðmagn“, Úrvalsrit I, bls. 141; þýðingu breytt; sbr. Marx, Lohnarbeit und Kapital/Lohn, Preis und Profit, Berlín 1998, bls. 26-27. Texta ísl. þýðingarinnar með nokkrum lagfæringum er að finna á vefsíðu minni, Safni til sögu sósíalískrar hreyfingar: https://ottomasson.wordpress.com/2017/02/28/karl-marx-1849-launavinna-og-audmagn/

[5] Marx, Capital, 1. bindi, bls. 283-284; Das Kapital I, bls. 193.

[6] Umfjöllun Georgs Lukács, The Ontology of Social Being. 3: Labour, London 1980, bregður talsverðu ljósi á þetta samhengi; sjá ekki síst fyrsta hlutann um samband orsaka og tilgengis, bls. 1-46.

[7] J. Habermas, „Technology and Science as „Ideology““, Toward a Rational Society, Boston 1968, einkum bls. 91-94.

[8] Sbr. áðurnefnda bók C.J. Arthur, Dialectics of Labour.

[9] Marx, „Introduction to a Critique of Political Economy“, í The German Ideology (ritstjóri C.J. Arthur), bls. 125-126.

Atburðirnir í Washington

Fréttir eru vitanlega enn að berast af atburðunum í Washington 6. janúar s.l., en meginatriðin virðast blasa við. Við getum sem betur fer hlegið smávegis í bili – þetta var ekki alvarleg valdaránstilraun, og við snögga skoðun líktist sjónarspilið helst einhvers konar fáránlegu fjölleikahússatriði. Og það svo sem rímar við vitleysuna sem Trump hefur svo oft haft í frammi á sinni tíð. En hin skoplega hlið málsins segir ekki hálfa sögu. Það er hætt við því að í augum trumpistanna sé meint kosningasvindl og árásin á þinghúsið enginn farsi, heldur afbragðsgóður stofn í mýtu og Ashli Babbitt gráupplagður píslarvottur. Alvöruhlið málsins má einnig marka af því að 45% stuðningsmanna Repúblikana eru hlynntir árásinni á þinghúsið, meirihluti þingmanna þeirra neituðu í kjölfar árásarinnar að samþykkja kosningaúrslitin og persónulegt fylgi við Trump er enn gríðarlegt. Alvara málsins býr einnig í sjálfsmyndunum öllum í Washington, sést af því að öryggisapparatið vissi vel af því hvað var í aðsigi en gerði ekkert til að afstýra því og opnaði hliðið fyrir þennan hægrisinnaða rumpulýð. Öfgahægriöflin sem Trump nær svo vel til eru nefnilega sterk í röðum alls þess apparats sem kennt er við „þjóðaröryggi“. Nú verður það einmitt sett á oddinn – ekki líf svartra.

Jafnvel lygar Trumps eru ekki eins hlálegar ef þess er gætt að þær voru raunar ekki nærri því eins mikil nýlunda og margir vildu vera láta, heldur komu í beinu framhaldi af áratugapólitík niðurskurðar, einkavæðingar og launafrystingar sem stjórnmálamenn hafa yfirleitt ekki treyst sér til að verja með rökum, heldur einungis með kredduvaðli, blekkingum, kjaftæði, hræsni, útúrsnúningum og lygum. Það er engin tilviljun: Hvernig á að réttlæta fyrir almenningi að vinna gegn honum og fyrir þrönga sérhagsmuni auðvaldsins? Trump er afsprengi þessa tíma. Hann er ekki afsprengi uppreisnar gegn frjálshyggju, heldur frambjóðandi og síðan forseti Repúblikana, forvígisafls frjálshyggju á heimsvísu. Það er orðið gamalt viðkvæði að stjórnmálamenn séu lygarar, og það gerðist ekki 2016. Lygaáráttan öðlast þyngd af því að stærri stjórnmálaflokkar standa alls staðar saman um svipaða efnahagsstefnu (frjálshyggju) og ekki síst í Bandaríkjunum þar sem tveggjaflokkakerfið býður upp á tvo auðvaldskosti og búið.

Hægriöfgar og fasismi

Ískyggilegasta hliðin á Trump er tengsl hans við hópa öfgahægrimanna í Bandaríkjunum. Trump hvatti þessa fylgismenn sína til að taka þátt í „villtum“ aðgerðum í Washington og þeir hlýddu kallinu. Af myndum má ráða að alltént sumir þeirra eru fasistar, bera margir skotvopn og vilja ólmir „sópa“ á götunum, þ.e. fara með ofbeldi gegn fólki sem þeim mislíkar. Trump hverfur úr embætti innan skamms, en hreyfingin – hyskið sem sópast hefur að Trump – hverfur ekki á næstunni, því miður. Forsetatími Trumps hefur hrist þetta fólk saman, veitt því hvatningu og sjálfstraust. Hann hefur hins vegar alltaf stuðst við þessi öfl eftir sínum hentugleikum, og hefur nú gefið yfirlýsingar sem þau túlka ýmist sem svik eða falsfréttir. Það er engin leið að vita hvernig þeim mun ganga að skipuleggja sig sjálfstætt á landsvísu, en það virðist líklegra en að þau taki Repúblikanaflokkinn hreinlega yfir.

Svona hópar byggja á langri arfleifð í Bandaríkjunum. Þarlendir stjórnmálamenn hafa lengi stært sig af því að vera hluti lýðræðisþjóðar, en það eru öfugmæli, og ekki einungis m.t.t. utanríkisstefnunnar. Bandaríkin sjálf eru afsprengi langrar og hroðalegrar ofbeldissögu – þjóðernishreinsunar gegn þeim sem byggðu Ameríku fyrir tíð „hvíta mannsins“ sem fór að skilgreina sjálfan sig sem slíkan, sem hvítan mann, þegar þrælahaldinu var komið á og varið með oddi og eggju. Eiginleg kynþáttahyggja eða etnískur rasismi á upphaf sitt í þessum aðstæðum og barst frá Bandaríkjunum til Þýskalands á sínum tíma. Nú hrífast svo bandarískir fasistar af orðum og gerðum Hitlers, og hafa svo sem gert það áður.

Fólkið sem verður virkt í þessum öfgahópum er oft ágætlega stætt, og hefur til dæmis efni á því að safna fullkomnum skotvopnum eða leggja í langferðalag til Washington með litlum fyrirvara. Pólitískt baksvið þess getur annars verið fjölbreytilegt – Ashli Babbitt hafði til dæmis stutt Obama eindregið á sínum tíma, en hafði óbeit á Hillary Clinton og ljáði Trump atkvæði sitt 2016. Öfgahægrið dregur til sín fólk sem gerir út á upplausn, örvæntingu og máttlausa reiði sem milljónir á milljónir ofan upplifa í Bandaríkjum samtímans, það veitir tilgang eftir sínu höfði, í stórveldisórum þar sem Ameríka verður aftur mikil, böndum er komið á ringulreiðina þar sem BLM hefur blossað upp og ekkert verður við Covid ráðið í landi einkarekinnar heilbrigðisþjónustu, „lögum og reglu“ til að berja á vinnandi alþýðufólki ef það er svo óforsjált að vera ekki hvítt á hörund, o.s.frv. Fasistana dreymir um að splundra verkalýðsfélögum, berja svart fólk og latneskt eða drepa það, lúskra á sósíalistum, banna starfsemi vinstrisinnaðra samtaka og andstæðinga rasisma. Þetta fólk hefur ekki áhuga á staðreyndum, því það veit hvað það vill. Lygaþvættingur, samsæriskenningar, gervivísindi, trúarblaður – hvað sem er – allt er betra en rökræður sem það hatar eins og pestina. Tvennt þarf til að þessum hópum vaxi verulega ásmegin: í fyrsta lagi þarf verkalýðs- og vinstrihreyfing að vera of vanmáttug til að standa í vegi þeirra, og í öðru lagi þurfa þeir á beinum stuðningi hluta auðvaldsins að halda, eins og raunin varð í Þýskalandi á sínum tíma. Slík sinnaskipti af hálfu bandaríska stórauðvaldsins eru þó ólíkleg nema pólitísk kreppa flokka þeirra dýpki enn verulega frá því sem nú er.

Hvað nú?

Trump fer úr Hvíta húsinu og í stað hans kemur gamall „miðjusinnaður“ drullusokkur af meiði frjálshyggjunnar sem mun setja „þjóðaröryggi“ á oddinn og bera því við að minna megi nú ekki vera eftir árásina á þinghúsið. Glamur um „þjóðaröryggi“ og „lög og reglu“ endurómar þá staðreynd að bandaríska ráðastéttin er uggandi yfir Black Lives Matter og í svipinn vissulega hundfúl yfir þeirri „móðgun“ og „niðurlægingu“ (bla bla bla) sem atburðirnir í Washington voru, en fýlan getur rokið fljótt úr þeim aftur. En þetta glamur verður yfirskin Demókrata, sem hafa nú fengið skýran meirihluta og hafa þar með ekkert til að fela sig á bak við, til að styrkja lögregluvaldið, auka persónunjósnir, skerða lýðréttindi, ráðast gegn verkalýðshreyfingunni, gegn vinstriöflum, gegn andstæðingum rasisma. AOC og öðrum „vinstrisinnuðum“ bjöllusauðum í röðum Demókrata verður alveg sópað til hliðar nema þá og því aðeins að þeir fylki sér á bak við þetta.

Í stuttu máli: Demókratar undir forystu Bidens munu gera mikið af því sama og Repúblikanar hefðu viljað gera í þeirra sporum og viðhalda þeim aðstæðum sem henta hægriskrílnum best. Lögreglumenn munu halda áfram að myrða svarta, en fjölmiðlar munu sýna því minni áhuga. Demókratar munu framfylgja sömu efnahagsstefnu og áður, gera hin ríku ríkari og hin fátæku fátækari, láta veikt fólk deyja drottni sínum ef það er auralítið og tryggja að sama skapi „öryggi“ þeirra sem hagnast á þessu öllu saman. Efnahagspólitík í anda frjálshyggju, business as usual, skapar kjöraðstæður fyrir öfgahægriöflin. Fátækt, húsnæðisvandi, gríðarlegt atvinnuleysi, einkavætt heilbrigðiskerfi, lögregluofbeldi, rasismi, þrældómsvinna myrkranna á milli og jafnframt algjör stöðnun eða afturfarir í launakjörum, og loks vonleysi og eiturlyfjaneysla er veruleiki sem milljónir Bandaríkjamanna þekkja af eigin raun.

Demókratar munu lítið aðhafast gegn öfgahægrimönnum og alveg óvíst að sá hluti þeirra sem fangelsaður hefur verið vegna þátttöku sinnar í uppþotinu í Washington þurfi að dvelja lengi í prísund. Þótt hægriöfgaöflin þurfi í bili að sleikja sárin og sæta skammvinnri öldu „laga og reglu“ gegn þeim, virðast þau líkleg til að sækja í sig veðrið þegar líður á forsetatíð Bidens.

Tveggjaflokkakerfið og verkalýðsbaráttan

Jafnhliða vexti öfgahægrisins er tilhneiging öfgamiðjunnar til meira valdboðs farin að verða augljós. Kapítalisminn hefur aldrei verið nein trygging fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum, öðru nær. „Lesser evil“ Demókrataflokksins er gömul lygasaga. Tveggjaflokkakerfið er hindrun í vegi þeirra sem vilja í alvöru bæta ástandið í Bandaríkjunum. Það er ekki afsprengi náttúrulegrar nauðsynjar, það er mannasetning og það er hægt að hrinda því. Fyrir hundrað árum kvað þar mjög að sósíalistum og glæstum baráttumönnum og skipuleggjendum, til dæmis Eugene V. Debs. Svipað getur gerst aftur. En til þess þarf átak. Hreyfingar á borð við Black Lives Matter eða um málefni kvenna skipta gríðarlegu máli, en veita ekki varanlegan, skipulagðan styrk eins og þarf andspænis auðvaldinu og hægrisinnuðum varaliðsafla þess. Það vantar sárlega flokk sem byggir á hagsmunum alls vinnandi fólks gegn auðvaldinu og sækir fyrst og fremst styrk til aukinnar stéttarbaráttu, stærri verkalýðsfélaga og baráttuanda meðal almennra félagsmanna í þeim.

Leiðin til að afstýra vexti fasismans og annarra öfgahópa hægrimanna er ekki sú að kjósa Demókrata, þaðan af síður Repúblikana, og raunar myndi ekki einu sinni nægja að kjósa vinstrisinnaðan flokk ef hann væri til. Fasismi er hreyfing og leitast við að ná valdi á götunum og á vinnustöðunum. Hann hlustar ekki á rök. Hann þarf að sigra og yfirbuga þar sem hann er, á götunum og á vinnustöðunum. Borgaraleg „lýðræðisleg“ stjórnmálaöfl hafa aldrei lyft litlafingri til að hindra fasista á götunum og ævinlega reynst svikul í baráttu gegn þeim yfirhöfuð, eins og reynsla þriðja og fjórða áratugar síðustu aldar vitnar best um. Alls staðar voru það stjórnmálaöfl verkalýðs sem beittu sér gegn uppgangi og yfirgangi fasista, þótt stefna krata og stalínísku kommúnistahreyfingarinnar hafi iðulega kostað alvarleg og afar dýrkeypt mistök í þeirri baráttu – stundum vegna glámskyggni og andúðar þeirra hvers á öðrum, en ekki síður vegna samstarfsvilja við borgaraleg öfl, sem gerðu svo ekki annað en að þvælast fyrir. Okkar stétt þarf að læra af gamalli sögu og sigrast á fasistum af eigin rammleik. Það er vonandi að stéttarsystkinum okkar í Bandaríkjunum takist á næstu misserum að kveða þetta pakk í kútinn og gera það skíthrætt og lítið í sér. Til þess að svo geti orðið þurfa verkalýðsöflin að beita sér kröftuglega á pólitísku sviði.

VG, stjórnarmyndunarviðræður og vinstrihreyfingin

Ég hef ekki í hyggju að skrifa um pólitík að nokkru marki á næstunni, hef öðrum hnöppum að hneppa. Hugrenningarnar hér á eftir munu því verða án framhalds að sinni, en hvað um það …

Ég kaus VG. Allir vissu að flokkurinn vildi ekki útiloka samstarf við íhaldið og Framsókn, en mér virtist ólíklegt að til þess kæmi. Nú er að koma á daginn að forysta flokksins hefur einmitt hug á þessu, og fyrri þreifingar virðast hafa verið leikrit að miklu eða öllu leyti. Retóríkin er fljót að koma hjá þessu fólki; þetta kváðu vera „sögulegar sættir um uppbyggingu innviða“ og til vitnis um vilja til að reyna eitthvað „nýtt“ í staðinn fyrir þrefið síðustu árin.

Forysta VG segir að íhaldið sé enn þá höfuðandstæðingurinn; það á bara að skapa sögulega sátt á þessu stigi um uppbyggingu innviða. Nú er það ekki flókið að maður sem leitar samninga við andstæðing – sérstaklega ef um „höfuðandstæðinginn“ er að ræða – reynir að baktryggja sig eftir fremsta megni, huga að styrk sínum og knýja svo fram eins hagstæða niðurstöðu og unnt er.

Og vert er að minnast þess að andstæðurnar sem um er að ræða snúast á endanum ekki um einberan hugmyndafræðilegan áherslumun, heldur félagslegar andstæður sem pólitískur ágreiningur sprettur af og öðlast inntak af. Landlæknir lýsti því yfir nú á dögunum að aðgangi að heilbrigðisþjónustu sé mjög misskipt og geðheilbrigðisþjónusta „nánast í molum“. Stór hluti þjóðarinnar lætur sig ekki einu sinni dreyma um það lengur að eignast húsnæði og jafnframt er leigumarkaðurinn algjör frumskógur. Andstæður fátæktar og ríkidæmis hafa almennt aukist verulega á síðustu árum og áratugum, einnig hérlendis.

Það er óþarfi að tíunda frekari dæmi hér. En hafa ber í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um það félagslega niðurrif sem hér hefur átt sér stað um langt árabil og því ræður engin hending, heldur stefna flokksins og þeirra félagsafla sem hann starfar fyrir. Hefur flokkurinn skipt um skoðun? Liggur fyrir stefnubreyting? Höfum við öll eða VG eitthvað í höndunum um vilja flokksins til að söðla um og bæta lífskjörin í landinu og tryggja til dæmis betra ástand í húsnæðismálum, stórbættan aðgang að heilbrigðisþjónustu, o.s.frv.? Neibb. Ekki neitt slíkt liggur fyrir … Æ, afsakið, ég gleymdi því: lítils háttar kosningaglamur um heilbrigðismál. En Sjálfstæðisflokkurinn sagðist líka vilja setja pening í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins fyrir ári síðan, en fékk þegar til kom samstarfsflokk sinn til að leiða einkavæðingaráform á því sviði. Eðlilega. Það er stefna flokksins.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert gefið eftir á stefnulegu plani, og það er einmitt stefna hans, frjálshyggjan, sem veldur fólki búsifjum. Þessi staðreynd ein sér nægir til þess að manni verður spurn hver grundvöllur hinna sögulegu sátta eigi að vera.

En svo er annað. Hvað með bakland VG, vinstrihreyfinguna? Hún logar – alveg fyrirsjáanlega – í deilum vegna vilja VG-forystunnar til að hefja þetta stjórnarsamstarf við auðvaldsöflin. UVG álykta gegn forystunni, tugir manna yfirgefa flokkinn, lojalistarnir í flokknum standa í þrasi við aðra vinstrimenn sem eru hundfúlir yfir þessu. Er þetta að ganga sterkur til samninga við meintan „höfuðandstæðing“? Að ala á sundrungu í vinstrihreyfingunni fyrir eitthvað sem enginn veit hvað er? Því við höfum ekki hugmynd um hvað „styrking innviða“ eiginlega þýðir. Af hverju vill forysta VG koma svona fram við allt sitt bakland? Hvers vegna segir hún okkur ekki af hverju við eigum að styðja þetta samstarf? Hvers vegna skýrir hún ekki fyrir okkur af hverju það sé mikilvægt og hvaða málum hún hyggst ná fram?

Nærtækast er að álykta að hún geti það ekki vegna þess að enn einu sinni er ekkert í kortunum um þau mál sem skipta vinnandi almenning í þessu landi mestu máli … Það rímar við þá staðreynd að engin stefnuleg eftirgjöf liggur fyrir frá hendi auðvaldsaflanna. Þetta er sem sé ekki eitthvað „nýtt“, heldur þvert á móti beint framhald stéttasamvinnunnar sem varð ofan á fyrir 30 árum og hefur gert það mögulegt að keyra í gegn frjálshyggjuprógrömm, einkavæðingu og niðurskurð. Og eins og venjulega eru það vinstriöflin sem slaka til við hægriöflin – ekki öfugt.

VG eru þegar farin að tapa fylgi. Það eina sem gæti afstýrt því að VG gjaldi afhroð í næstu kosningum væri ef flokkurinn og stjórnin áorkaði breytingum sem breyttu í raun lífi fólks í landinu til batnaðar, m.ö.o. ef flokkurinn gerði það sem fólk kaus hann til að gera. Það mun aldrei gerast í þessu samstarfi. Sjálfstæðisflokkurinn kann að semja við andstæðinga og mun tryggja eftir fremsta megni að VG taki skellinn.

Þessi bjálfaskapur VG forystunnar gerir samt ekki endilega svo mikið til. Það er allt í lagi að fólk geri sér grein fyrir því að það þarf annað afl til vinstri við hann ef einhverju á að breyta til hins betra. Afl sem miðar ekki starf sitt við stéttasamvinnu og baktjaldamakk við auðvaldið, heldur baráttustefnu, ekki síst utan þings. Takmarkanir þingræðisins hafa orðið einkar ljósar síðustu árin, og flokkar sem miða allt við þær takmarkanir hafa ekki komið að haldi í streðinu við auðvaldsöflin.

Það er hins vegar gremjulegt að VG skuli beinlínis rétta íhaldinu hjálparhönd. Við höfðum íhaldið fyrir skemmstu í þeim sporum að það var þægilegra að eiga við það en endranær. Klofið, með lítið fylgi og minna sjálfstraust en venjulega, skandalarnir búnir að gera flokknum erfitt fyrir. Ég sé ekki betur en að það hefði verið tilvalið fyrir VG að segja: „Nei, við nennum ekki að ræða við ykkur. Þið eruð samfélagsvandamál, starfið bara örlitlum minnihluta samfélagsins til hagsbóta og glímið við slíkan spillingarvanda að það er varla hægt að starfa með ykkur í stjórn hvort sem er.“

Það hefði mátt reyna að einangra íhaldið og láta það engjast, helst árum saman, í uppdráttarsýki, vaxandi forystukreppu og innbyrðis argaþrasi um leiðir út úr vanda sínum, o.s.frv. Ég get ekki séð að VG beri sérstök skylda til að leysa stjórnarkreppuna hér og nú. En flokknum ber skylda til að fara með andstæðing sem andstæðing. Þetta Nýsköpunarrugl hjálpar bara auðvaldsöflunum, sem verða firna sterk í þessari ríkisstjórn. Þess vegna verður hún líka andstæðingur vinnandi fólks í þessu landi, og VG verður hinu megin víglínunnar.

Hugleiðingar um baráttuna gegn auðvaldsstjórninni og stöðu róttækrar vinstrihreyfingar

Sú samstjórn auðvaldsflokkanna sem hér hefur setið að völdum frá 2013 hefur hvað eftir annað gjörsamlega gengið fram af fólki, en staðreyndin er þó sú að atburðarásin í apríl síðastliðnum var eina skiptið sem reyndi á stoðir hennar. Þá varð fljótlega augljóst að ekki myndi fleira ávinnast en afsögn forsætisráðherrans og lítils háttar uppstokkun – nema afhjúpunin sem öllu hratt af stað sé sjálf talin slíkur ávinningur. Menn höfðu ætlað sér að fella loks þessa vondu auðvaldsstjórn, en hún hélt raunar velli, og stendur nú sterkari en hún gerði áður en aprílkrísan byrjaði. Staða íhaldsins hefur styrkst innan stjórnarinnar, fylgi Framsóknar hefur aukist á nýjan leik; stjórnarliðar geta hæglega dregið að efna til kosninga ef þeim sýnist svo. Íhaldið ögrar okkur nú með fyrstu stóru skrefunum í átt til einkavæðingar heilbrigðiskerfisins. Við hljótum að spyrja: Hvað fór svona úrskeiðis hjá andstæðingum stjórnarinnar og hvers vegna?

Aprílkrísan

Þegar sjónvarpsþátturinn frægi var sýndur og sprengjan sprakk undir kvöld 3. apríl síðastliðinn, voru forsetinn og formaður Sjálfstæðisflokksins báðir staddir erlendis; og þótt vitað væri að tveir ráðherra þess flokks væru flæktir í aflandsmál, þ.á.m. Bjarni Benediktsson, mæddi aðallega á forsætisráðherra, Sigmundi Davíð. Ekki varð betur séð en að á hann kæmi algjört fát. Hann hafði raunar haft rúman hálfan mánuð til að velta fyrir sér hvað til bragðs ætti að taka, því viðtalið var tekið upp í miðjum mars-mánuði, en sá tími virðist lítt hafa nýst honum. Kona hans birti færslu á Facebook um aflandsfélagið, Wintris, og þá hafði almenningur fyrst spurnir af málinu; einnig ræddi Sigmundur Davíð einslega við Bjarna Benediktsson á heimili sínu, að því er virðist um svipað leyti, en virðist ekki hafa lýst gangi viðtalsins ítarlega þá.

Einum og hálfum sólarhring eftir að viðtalið var sent út birti Sigmundur Davíð svo færslu á Facebook, að morgni dags 5. apríl, og kvaðst þar myndu rjúfa þing og efna til kosninga ef þingmenn Sjálfstæðisflokks styddu ekki ráðuneyti sitt. Fundi sínum með forsetanum kl. 13 sama dag vildi hann flýta. Um ekkert af þessu hafði Sigmundur þó rætt við Sjálfstæðismenn né heldur við sinn eigin þingflokk. Ólafur Ragnar synjaði Sigmundi um þingrofsbeiðni, og greindi fjölmiðlum frá því nær samstundis. En viti menn, síðar um daginn birtist frétt sem raunar leit út eins og leiðrétting – tilkynning frá forsætisráðuneytinu: ekki hafi verið um formlega beiðni um heimild til þingrofs að ræða, og frásögn forsetans röng eða villandi. Þetta var undarlegt og ósannfærandi, og kom naumast á óvart þegar Ólafur Ragnar staðfesti skömmu síðar að hann hefði áður greint réttilega frá málsatvikum. Aftur leit Sigmundur Davíð út eins og erkiflón og hann fór loks í fússi á fund í þingflokki Framsóknarflokksins.

Frumkvæðið var nú hjá Sjálfstæðismönnum, og þeir notfærðu sér það vel. Að lokinni sneypuför Sigmundar á Bessastaði ræddi forseti við Bjarna Benediktsson, sem nú var loksins kominn heim úr fríi í Bandaríkjunum. Einhverjir gátu sér þess til að Bjarni hafi raunar ekki misst tvisvar af flugi heim daginn áður, eins og gefið var út, heldur frestað heimför sinni af ásettu ráði og þannig losnað við óþægilega umræðu á þingi sem auk þess var honum persónulega ekki skeinuhætt, í fjarveru hans, meðan spjótin stóðu aðallega á Sigmundi; frestunin keypti Bjarna þannig tíma til að hugsa ráð sitt í næði, jafnframt því sem hann ræddi við samráðherra sína og þingflokk um stöðuna sem upp var komin. Þetta hljómar afar sennilega í mínum eyrum, en er þó ágiskanir. Hitt er einsýnt að Bjarni hafi mjög fljótt, þ.e. meðan hann var enn úti í Bandaríkjunum, gert upp við sig að Sigmundur yrði að víkja úr stjórninni, en hún annars að sitja áfram eins og kostur væri.

Í aprílkrísu stjórnarinnar var ekkert óðagot á Bjarna og stöðumat hans kalt og vel hugsað – frá sjónarmiði auðvaldsins vitanlega. Fyrst hélt ég raunar í bjálfaskap mínum að hann vildi slíta stjórnarsamstarfinu. Fyrstu yfirlýsingar hans eftir útsendingu viðtalsins hnigu einfaldlega að því að hann tæki málið alvarlega og hlustaði á gagnrýni, o.s.frv. Allir stöldruðu við þetta, ekki síst vegna þess að yfirleitt hefur Bjarni lítið gefið út á það að gagnrýnisraddir skipti yfirleitt nokkru máli. Jafnframt komu yfirlýsingar sumra þingmanna flokksins og loks samþykkt Heimdallar um að samtökin myndu ekki styðja ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs. Þar var raunar þegar ýjað að markmiðum forystu flokksins. Þarna voru Sjálfstæðismenn einfaldlega að vinna tíma meðan þeir sættu færis að ná svo frumkvæðinu, og það tókst síðdegis 5. apríl.

Íhaldið hafði komið sér upp áætlun um að tryggja að stjórnin gæti starfað áfram nær óbreytt, en að vísu án Sigmundar; hann varð að fara. Þessi áætlun var vel hugsuð og náði fram að ganga. Framsóknarflokkurinn var engin fyrirstaða, þar sem formaður flokksins hafði gersamlega málað sig út í horn, og flokknum naumast akkur í því að efna til kosninga eins og mál höfðu skipast.

Mótmælaaldan og arfur „vinstristjórnarinnar“

Fólk vill gjarnan rassskella spillta pólitíkusa, og af þeim sökum var þátttakan fyrsta kastið prýðileg í mótmælahrinu sem hófst þegar 4. apríl. Yfirlýsingin um uppstokkun ráðherraliðsins kom fram 7. apríl og vantrauststillaga var borin upp og felld á Alþingi daginn eftir. Mótmæli í blíðskaparveðri laugardaginn 9. apríl voru sérstaklega vel sótt, en sannleikurinn er sá að þá var þegar ljóst að ekki myndi takast að koma stjórninni frá völdum. Mótmælum var að vísu haldið áfram, en nú dró úr þátttöku.

Eitt er hér eftirtektarvert. Það verður ekki markað af neinu í allri þessari atburðarás að Sjálfstæðismenn hafi nokkru sinni óttast stjórnarandstöðuna, innan eða utan þings, heldur sættu þeir einfaldlega færis að styrkja stöðu sína innan stjórnarinnar. Og það er eiginlega allt og sumt. Hvernig stendur á því að vinstrihreyfingin, sem kvaðst þó staðráðin í að koma stjórninni alveg frá völdum, var þeim Sjálfstæðismönnum ekkert áhyggjuefni? Það er raunar ekki flókið reikningsdæmi. Hvað gerðist? Bjarni tilkynnti einfaldlega þessa lítilvægu breytingu á ráðherraliðinu, bætti svo við að stjórnin hafi tryggan þingmeirihluta og engin frekari uppstokkun á döfinni. En þetta þýddi vitaskuld að stjórninni yrði ekki komið frá nema með langvinnri baráttu utan þings, og hana þurfti Bjarni einmitt ekki að óttast – því hann vissi sem var að andstöðuflokkarnir gætu ekkert sagt hvað ætti að koma í staðinn. Þetta reyndist rétt. Það er algjör óþarfi að dást að ályktunargáfu íhaldsins, því þessi útreikningur gat ekki einfaldari verið og stóðst alveg vegna þess að vinstriflokkarnir buðu þessu heim.

Kjarni málsins er þessi: Langvinn barátta utan þings þegar engin stefna lá fyrir um framhaldið eftir kosningar, engin stefna sem miðar við brýn hagsmunamál vinnandi fólks í landinu – slík barátta gat ekki sigrað af ástæðum sem máttu heita alveg augljósar, því fólk fer þá óhjákvæmilega að spyrja sig fyrir hverju sé barist. Er barist fyrir annarri „vinstristjórn“ með sömu efnahagsstefnu og auðvaldsflokkarnir? Annarri „vinstristjórn“ sem gulltryggir með öllum aðgerðum sínum að hægristjórn fylgi strax á eftir?

Fólk man og veit hvernig þetta gengur fyrir sig. Og þegar svo hægristjórnin kemur stendur ekki á skýringum „vinstrimanna“: Þjóðin er óskaplega „vitlaus“ að „kjósa þetta yfir sig“. En fólk kaus ekki Framsókn vegna heimsku, heldur vegna þess að „vinstristjórn“ með öruggan þingmeirihluta sem komst til valda á öldufaldi fjöldabaráttu reyndist svo gjörsamlega dáðlaus að fólk hugsaði sem svo að það hefði enga að tapa á því að láta á það reyna hvort Framsókn myndi standa við stóru orðin – svona úr því „vinstristjórn“ skilaði alls engu. Því fyrir vinnandi alþýðu í þessu landi skilaði hún engu, punktur.

Það er ekki ósanngjarnt mat. Stuðningsmenn „vinstristjórnarinnar“ halda því einatt fram að um „björgunaraðgerðir“ hafi verið að ræða. Þá er litið svo á að verkefni stjórnarinnar hafi verið að glíma við brýnan tæknilegan vanda – einhvers konar sérfræðilegt viðfangsefni sem alþýðan skilur ekki. Vandinn hafi sem sé ekki verið pólitískur, og ekki haft neitt með stéttir samfélagsins að gera. Þetta er bara þvaður. Það var kreppa í auðvaldsbúskapnum og bankakerfið hrundi. Svarið við einfaldri og augljósri grundvallarspurningu réði öllu um það til hvaða einstakra ráðstafana yrði gripið í kjölfarið, og spurningin var þessi: hver borgar brúsann? Þessi orðatittur – „björgunaðgerðir“ – svarar ekki þeirri spurningu, og er ekkert nema undanbrögð.

En við þurfum svo sem ekki að spyrja, því við vitum mætavel hverjir hafa fengið að borga brúsann, og það voru ekki auðmennirnir. Minnumst þess hvernig þessi „vinstristjórn“ komst til valda. Hvað gerði hún? „Vinstristjórnin“ hélt áfram makki fyrri stjórnar við AGS og tryggði að bankakerfið yrði endurreist í nær óbreyttri mynd. „Vinstristjórnin“ skerti húsaleigubætur, réðist á kjör aldraðra og öryrkja, skar niður í heilbrigðiskerfinu og hélt kappsamlega áfram að sparka flóttamönnum úr landi – er nema von að hægristjórnin haldi áfram á sömu braut? Loks sótti „vinstristjórnin“ um aðild að ESB – þótt fyrir lægi að meirihluti þjóðarinnar væri því andvígur og þrátt fyrir að VG hafði beitt sér gegn aðild fyrir kosningar.

Loks ærðist Samfylkingin af reiði út í forsetann þegar hann setti Icesave í þjóðaratkvæði, en mæltist svo til þess í fýlutón að fólk segði já og gengist þannig við því að bera ábyrgð á kreppu auðvaldsins. Samfylkingin er svo sem ekki ein um þá skoðun að „við berum öll ábyrgð á hruninu“. Davíð Oddsson hélt þessu líka fram nú fyrir forsetakosningarnar, og löngu áður hafði Björgólfur Guðmundsson gagnrýnt afar ámælisverð flatskjáakaup íslenskrar þjóðar, sem hann hafði til vitnis um þetta sama.

Fjöldamótmælin í apríl síðastliðnum miðuðu beinlínis að því að fella ríkisstjórnina. En íslenska auðvaldið vissi mætavel að pólitíska heildarstefnu vantaði sem hefði getað staðið sem eiginlegur valkostur við stefnu hægristjórnarinnar. Arfleifð „vinstristjórnarinnar“ og skorturinn á sjálfstæðri stefnu hafði lamandi áhrif á fjöldabaráttuna um leið og lítilsverðar hrókeringar hægrimanna voru afráðnar. Það vantaði stefnu sem tók svari vinnandi fólks gegn auðvaldinu og pólitískum fulltrúum þess, og það réði úrslitum.

Samfylkingin

Það var mikið sjónarspil sem almenningur fékk að berja augum í apríl. Annars vegar sirkus stjórnarliða sem fyrr var lýst; og hins vegar skörulegir vinstrimenn sem hófu upp raust sína á Alþingi Íslendinga og mæltist svo: „Vá, þið eruð rosalega spillt stjórn. Plís, fariði burt.“ En vei, ó vei! Hinir vígreifu baráttumenn komust svo að raun um það, sér til sárrar gremju, að bón þeirra var til einskis fram borin. Stjórnarliðar notfærðu sér bara þingmeirihlutann til að kolfella vantraustið og héldu svo glaðir og reifir áfram að dútla við hin „mikilvægu verkefni“ sín. Þá sneru vinstrimennirnir vösku sér hneykslaðir að almúganum og sögðu, „Fólk, hey, plís, fellið stjórnina. Hún er svo ógisla spillt! Plís. Við skulum svo fara í stjórn og gera eitthvað sem okkur sýnist, eitthvað efnahagslega raunhæft sem AGS segir okkur að gera (og kannske sækja um aðild að ESB þó þið hafið ekki áhuga á því af því þið eruð svo vitlaus).“

En vinnandi alþýða í þessu landi er ekkert heimskari en gengur og gerist, og alveg áreiðanlega ekki heimskari en stjórnmálamenn sem hafa þetta fram að færa. Menn bjástra nú með litlum árangri við að reyna að finna fylgi Samfylkingarinnar í smásjá. En þar á bæ er þetta talið spurning um nýjan formann – endurmat óþarft. Fyrr á árinu gerði Árni Páll því raunar skóna að hugsanlega þyrfti slíkt endurmat að eiga sér stað, en virtist hafa gefið sér fyrir fram að niðurstaða þess hlyti að vera sú að flokkurinn ætti að „sækja á miðjuna“, og raunar hafði flokkurinn þegar til kom engan áhuga á neinu endurmati. Skamma hríð gufaði eilífðarraus flokksins um aðild að ESB að mestu leyti upp, en alveg skýringalaust, enda var ekki um neins konar uppgjör að ræða. Samfylkingin vill enn koma vinnandi alþýðu undir ok ESB með öllum tiltækum ráðum, þrátt fyrir framgöngu sambandsins gegn Grikkjum á síðasta ári, og með tilkomu Viðreisnar má búast við því að forysta flokksins líti svo á að hún hafi fengið aftur kærkomið tilefni til þess að „sækja á miðjuna“ og endurvekja ESB-málflutninginn.

Í Bretlandi hafa gerst söguleg tíðindi, eins og allir vita. Ætla mætti að flokkur sem barist hefur fyrir aðild Íslands að ESB reyndi að fjalla um þau af sæmilegri alvöru. En viti menn – Össur Skarphéðinsson segir að Brexit styrki ESB. Rök hans eru þessi: „Brexit hefur óvænt leitt til aukins stuðnings við Evrópusambandið. Gott dæmi um það er einmitt Danmörk. Þeim Dönum sem vilja úr sambandinu hefur fækkað en ESB-sinnum snarfjölgað. Gagnstætt því sem menn töldu virðist því sem Brexit hafi haft allt önnur áhrif en menn ætluðu á framtíð Evrópusambandsins. Brexit hefur styrkt innviði þess en stóraukið líkur á að það verði ekki Evrópusambandið heldur Stóra-Bretland sem kann að rakna upp.“

Víða um lönd er nú verið að ræða tvísýna framtíð evrunnar og hina þrálátu kreppu á Ítalíu, þriðja stærsta hagkerfi álfunnar. Össur skeytir ekki um slíka smámuni, og að hans mati veikir það heldur ekki ESB að Bretland, næststærsta hagkerfi álfunnar, hverfi alveg úr sambandinu. Ástæðan er sú að sveiflur í viðhorfum dansks almennings vega á móti því og gott betur. Ætli hann telji kannske líklegt að ESB styrkist enn frekar ef fleiri ríki færu að dæmi Breta, enda aldrei að vita nema stuðningur við aðild aukist um svip í Færeyjum eða einhverjum öðrum stað? Það er vissulega rétt að breska ráðastéttin er í miklum vandræðum, enda hafði yfirgnæfandi meirihluti hennar stutt áframhaldandi aðild að sambandinu. Af þessu ályktar Össur: ef Bretland er í bobba eftir Brexit … hlýtur ESB að styrkjast. Um Grikkland þegir hann þunnu hljóði.

Að öllu samanlögðu virðist Samfylkingin ekki líkleg til þess að draga neinn uppbyggilegan lærdóm af ógöngunum í apríl. Búast má við einhverjum fagurgala um heilbrigðismálin fyrir næstu kosningar frá Samfylkingunni – eins og Bjarna Benediktssyni – en það sem upp úr stendur er sú einfalda staðreynd að flokkurinn aðhyllist frjálshyggju í efnahagsmálum, rétt eins og ESB, AGS og hægristjórnin. Heilbrigðiskerfið íslenska er nú svo illa leikið og kostnaðarhlutdeild sjúklinga svo gríðarleg, að til endurreisnar kerfisins þarf algjöra kúvendingu í ríkisfjármálunum, áætlun til margra ára og gríðarlegar fjárveitingar; og þá eru alveg ótalin skemmdarverk sem unnin hafa verið á öðrum sviðum sem varða hagsmuni vinnandi alþýðu í landinu. En forysta Samfylkingarinnar hefur enga alvarlega áætlun um endurreisn heilbrigðiskerfisins eða nokkurn skapaðan hlut annan, og ætlar sér ekki að ráðast í neitt þvílíkt ef hún kemst í stjórn. Það er raunar einmitt þess vegna að fólk hefur engan áhuga á flokknum. Ef fólk langar í niðurskurð og hægristefnu á það nefnilega aðra valkosti.

Við búum við langvarandi alþjóðlega auðvaldskreppu. Hún ræður stefnumiðum auðvaldsins alls staðar í Evrópu og út um heim, einnig á Íslandi. Úrræðaleysi íslenskra krataforingja andspænis þessari kreppu er ekki sér-íslenskt, fremur en kreppan sjálf. Allir vinstrisinnaðir umbótaflokkar líta á borgaralega ríkisvaldið sem sinn eðlilega starfsvettvang, fjarri afskiptum almennings; þar vilja þeir svonefndan „starfsfrið“ í makki við alþjóðastofnanir auðvaldsins sem svo aftur hvetja til niðurskurðar, ýta undir tortyggni í garð innflytjenda, o.s.frv. Forysta Samfylkingarinnar telur þetta einu leiðina til umbóta á samfélaginu. En þetta er ekki eina leiðin. Þetta er ekki einu sinni leið, því hún skilar alþýðu manna engu nema rýrnandi lífskjörum, skertum lýðréttindum og árásum á heilbrigðis- og menntakerfi, í stuttu máli: endalausum ósigrum.

Raunverulegur umbótaflokkur?

Hvað vill vinnandi fólk í þessu landi? Hvað telur það sig þurfa? Mér virðist, hvað sem ýmsum flækjum líður, ekki leika vafi á því að það hefur engan áhuga á aðild að ESB, og lítur ekki heldur á endurskoðun Stjórnarskár sem neitt forgangsmál. Það er líka einföld staðreynd að vinnandi alþýðu dreymir ekki heldur um sósíalíska byltingu; hún er ekki reiðubúin að taka stjórnmálin í sínar eigin hendur og berjast fyrir hagsmunum sínum. Hún vill einfaldlega geta kosið flokk sem ræðst til atlögu við vandamálin fyrir sig. Hún hefur allt frá hruni viljað raunverulegan umbótaflokk. Þetta kann að breytast, en svona hefur þetta verið síðustu árin og er enn.

Enginn þarf að ganga þess gruflandi um hvað þetta snýst. Vinnandi fólk í þessu landi vill geta kosið stjórnmálaflokk sem hlustar á það þegar rúm 86 þúsund manns skrifa undir kröfur um endurreisn heilbrigðiskerfisins, flokk sem skilur að um brýnar þarfir fólks í landinu er að ræða og einhendir sér í það að gera þá endurreisn að veruleika. Kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur nánast tvöfaldast síðan frjálshyggjan náði undirtökunum í pólitíkinni, og hryllingssögur af fjársveltu heilbrigðiskerfinu eru orðnar næsta hversdagslegt lesefni á miðlunum öllum. Vinnandi fólk finnur á eigin skinni nauðsyn þess að breyta þessu og bíður þess enn að fram komi stjórnmálaafl sem tekur fullt mark á því.

Auk þess finnur fólk sárlega til vöntunar á pólitísku afli sem gerir ráðstafanir til þess að það geti fengið þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði, lagfærir skemmdarverkin á menntakerfinu, tryggir öllum atvinnulausum vinnu eða bætur. Ekki endilega nákvæmlega þetta eða allt þetta, en eitthvað í þessum dúr. Fólk vill raunverulegan umbótaflokk sem gengur í þessi verk af trúmennsku við vinnandi alþýðu; bankarnir, útgerðarauðvaldið og hinir skattsvikararnir mega svo alveg við því að fá einhvern skell.

Fólk langar að kjósa svona flokk. En sá galli er á gjöf Njarðar að þessi raunverulegi umbótaflokkur er ekki til. Þetta var augljóst í apríl síðastliðnum, en hefur einkennt allar fylgissveiflur flokkanna mörg síðustu árin, allt frá hruni. Ekkert stjórnmálaafl á vinstrivængnum skuldbatt sig hagsmunum vinnandi fólks með skýrri heildarstefnu gegn niðurskurði og jafnframt kynþáttahyggju og útlendingahatri.

Píratar eru ekki vinstriflokkur, vilja ekki skuldbinda sig hagsmunum vinnandi alþýðu og áskilja sér fullan rétt til að gera hvaða tilslakanir sem vera skal við hvern sem vera skal; þeir gætu raunar breyst fyrirvaralítið í frjálshyggjuflokk. Fylgi flokksins óx jafnt og þétt á nokkuð löngu samfelldu tímabili fram að uppstokkun ríkisstjórnarinnar, og mældist ríflega 40% þegar mest var. Eftir hrókeringarnar snarminnkaði fylgið aftur, þó enn sé það mikið, um 28% ef mér ekki skjátlast. Innan flokksins er vissulega að finna vinstrisinnuð öfl, en það er alveg út í bláinn að ímynda sér að þau hafi bolmagn til þess að stuðla að gerbreyttri efnahagsstefnu ef til ríkisstjórnarmyndunar kemur.

Fylgi VG jókst á hinn bóginn eftir mannaskiptin í ríkisstjórn, en hefur svo dalað á ný. Við bíðum öll spennt. Ætlar flokkurinn ekki að draga augljósar ályktanir af því sem gerst hefur? Íslenskt og alþjóðlegt auðvald vill einkavæða heilbrigðisþjónustu hvað sem tautar og raular, og skerða jafnframt möguleika okkar til mennta. Þora VG að móta stefnu sem gengur gegn þessu? Ef VG telur sig vera þann róttæka umbótaflokk sem fólk dreymir um á hann bersýnilega langt í land með að gera upp við arfleifð „vinstristjórnarinnar“ og útfæra skýran stefnulegan valkost sem þjónar hagsmunum vinnandi fólks.

Ætti að stofna róttækan umbótaflokk?

Stofnun slíks flokks væri vissulega ávinningur. Í apríl síðastliðnum gátu hægrimenn látið eins og vinstrihreyfingin væri ekki til, en ef svona flokkur skapast breytist það. Mér virðist hins vegar að stofnun slíks flokks sé ekki besta leiðin til að undirbúa skipulagða baráttu gegn niðurskurðarstefnu og hægriöfgum auðvaldsins. Umbótaflokkur sem ætlar sér að gera slíka baráttu að sinni, segja það sem hann meinar og meina það sem hann segir, mun óðara reka sig á mikil vandamál. Atburðarásin í Grikklandi á síðasta ári leiddi vel í ljós hvílíkum erfiðleikum þetta er bundið.

Fyrst er að búa flokkinn til – væntanlega með miklu samningaþófi, afslætti hér og þar og alls staðar, því hann væri raunar alltaf í ætt við samfylkingu eða breiðfylkingu. Þessu fylgja ýmsir augljósir ókostir. En gefum okkur nú að allt fari þarna að óskum, framvindan þar á eftir gangi áfallalítið og flokkurinn nái loks yfirburðasigri í þingkosningum. Hvað tekur þá við? Eitt er að ríkisvaldið er ekki það hlutlausa verkfæri sem allir umbótasinnar gera ráð fyrir, og stór hluti embættismannakerfisins, einnig í ráðuneytunum, mun gera allt hvað hann getur til að skemma fyrir stjórninni. Þetta eru engir órar mínir. Það gerðist í Grikklandi meðan Syriza var enn óbugað, og ráðherrar flokksins sáu þann kost einan í stöðunni að sneiða hjá þessum starfsmönnum sínum. Það er ekkert einsdæmi heldur í sögunni.

En við það bætast fyrirsjáanlegar aðgerðir auðvaldsins. Íslenskir kapítalistar eru ekkert öðruvísi en stéttarsystkini þeirra annars staðar. Þeir munu halda að sér höndum í fjárfestingum, auðmagnsflótti mun gera vart við sig, o.s.frv. og á laun mundu þeir dæla peningum í öfgahægriöfl. Róttæk umbótastjórn verður að vera undir allt þetta búin og þora að rísa gegn því af hörku, annars verður hún sjálf barin til hlýðni af öflunum sem ætlunin var að eftirláta ekki lengur öll völd.

En aðalfyrirstaðan verður alþjóðastofnanir auðvaldsins. Þær munu beita öllu afli sínu gegn róttækri umbótastjórn. Hún getur ekki staðið af sér slíkan þrýsting nema með einni aðferð: að sækja allan styrk sinn til samtaka vinnandi alþýðu í eigin landi og út um allan heim. Hún á enga aðra trausta bandamenn en stéttarsystkin sín annars staðar. Alþjóðasinnuð, stéttbundin utanríkisstefna er enginn „munaður“ sem hægt er að fórna fyrir árangur innanlands. Því er einmitt þveröfugt farið. AGS fer til dæmis einatt fram á mikið laumuspil þar sem hann grípur inn (eins og á Íslandi). Slíku leynimakki verður að hafna alveg og gera vinnandi fólki alls staðar í heiminum kleift að átta sig á viðræðum og taka afstöðu til þeirra á grundvelli fyllstu upplýsinga – ekkert er betur fallið til þess að auka stuðning við róttæka umbótastjórn en nákvæmlega þetta.

Þetta er eitt af þeim prófum sem Syriza kolféll á í fyrra, og Grikkland auk þess afar viðkvæmt fyrir aðgerðum ESB og Evrópubankans vegna aðildar að sambandinu, einnig vegna þess að Syriza hafði í raun enga varaáætlun. Flokki sem myndaður er um lægsta samnefnarann lengst til hægri mun fyrirsjáanlega veitast erfitt að beita sér sem alþjóðasinnaður baráttuflokkur vinnandi fólks í heiminum; en það verður hann að geta gert. Það er því ástæða til að óttast að slíkur flokkur væri illa búinn til að standast það álag sem hann fyrirsjáanlega þarf að geta staðist – ef hann á annað borð næði völdum.

Ég er því efins um að mynda eigi róttækan umbótaflokk til að snúa undanhaldinu við og sporna við niðurskurðaráráttunni, og myndi þó vafalaust styðja slíkan flokk í mörgu ef hann kæmi fram á sjónarsviðið. En í baráttu gegn niðurskurðarráðstöfunum þarf ekki að einblína á myndun flokks um þau mál sérstaklega, heldur ætti að mynda samfylkingu allra samtaka og flokka vinnandi fólks um þau mál. Slík barátta hefur enn ekki hafist á Íslandi, og það þarf nauðsynlega að breytast. Getur verið að það vanti and-kapítalískan flokk til að blása til slíkrar baráttu? Slík öfl eru til dæmis veikburða í Bretlandi, en þau eru til, og mér sýnist að það eitt skipti verulegu máli.

Þarfir vinnandi fólks og stjórnmálaöflin

Vonir almennings um róttækan umbótaflokk sem tekst á við niðurskurðaröflin af fullum heilindum með hagsmuni vinnandi fólks – yfirgnæfandi meirihluta samfélagsins – að leiðarljósi eru ekki sprottnar af einhvers konar dyntum, lélegum vitsmunum, hænuminni eða tískustraumum. Undir þessum sveiflum í fylgi flokkanna á undanförnum árum glittir í auðskiljanlegar væntingar sprottnar af brýnum þörfum fólks, og sveiflurnar spretta ekki síst af því að þennan kost hefur vantað. Fólk reynir allt stjórnmálabatteríið að algeru skilningsleysi og áhugaleysi um augljós og brýn vandamál sem það stríðir við í daglegu lífi, missir traust á hefðbundnu pólitísku öflin, og leitar annarra valkosta. Uppgang hægriöfga verður einnig að skoða í þessu samhengi; slík öfl nærast ekki síst á veikleikum róttækrar vinstrihreyfingar.

Vonir alþýðufólks um róttækan umbótaflokk er í meginatriðum hægt að túlka á þrenna vegu, og til þeirra túlkunarleiða svara ólíkar pólitískar úrlausnir. Í fyrsta lagi er hægt að leiða þarfir vinnandi fólks hjá sér, hafna þeim eða neita að viðurkenna þær; í öðru lagi er hægt að taka þær bókstaflega og byggja á þeim pólitíska stefnu; og í þriðja lagi er hægt að líta á þær sem vörðu á veginum til beinnar og alhliða andstöðu við auðmagnskerfið sjálft. Ég hygg að þessar túlkunarleiðir birtist allar í litrófi íslenskrar vinstrihreyfingar á einn eða annan hátt, sú fyrsta langskýrast. Ég er sjálfur talsmaður þeirrar síðastnefndu.

(1) Umbótasinnar sem taka að sér að leysa kreppu auðvaldsins í þágu ríkjandi skipulags, s.s. Samfylkingin og hliðstæðir flokkar í öðrum löndum, sjá ekkert nema yfirborðið, fylgissveiflurnar sjálfar, sem þeim virðast spegla einbera dynti fjöldans. Þeir líta ekki svo á að sveiflurnar séu til vitnis um óskir og vonir vinnandi fólks um róttækan umbótaflokk; í öllu falli séu slíkar vonir misráðnar, því kratarnir telja sig vita betur. Í staðinn tefla þeir fram töfraformúlum sem kváðu leysa allan vanda vinnandi fólks og kapítalista í senn. Eitt dæmið er vitaskuld sú hugmynd að ef Íslendingar gangi í ESB og fari að brúka evrur verði hér allir í góðum málum. Töfraformúlurnar eru fleiri, og sums staðar verður raunar vart þess að kratar gæli við fordóma um erlent vinnuafl og láti í veðri vaka að innfædda vinnuaflið eigi að ganga fyrir í ráðningum o.þ.h. En hver sem formúlan er leggja kratar mesta áherslu á það að vera „stjórntækir“ – þ.e.a.s. að þjóna auðvaldsöflum – og einmitt þess vegna hafa þeir tilhneigingu til þess að leiða hjá sér þarfirnar sem liggja undir væntingum vinnandi fólks og viðurkenna þær alltént ekki sem pólitískt grundvallaratriði. Ef þeir komast í stjórn stuðla þeir að litlum eða engum umbótum sem nokkru máli skipta, en valda þeim mun meiri vonbrigðum og uppgjafaranda. Það væri þó misráðið að setja krataflokkana algerlega á sama bás og flokka auðvaldsins. Staða krataflokkanna meðal vinnandi alþýðu hvílir á langri hefð, þeir hafa jafnan nokkurt fastafylgi, og í sviptingum á borð við hrunið leitar fylgi sem áður var á miðjunni eða hægrivængnum fyrst til Samfylkingarinnar, svo íslenska dæmið sé tekið. Við ýmsar aðstæður geta þeir einnig viðkvæmir fyrir þrýstingi neðan frá, með hætti sem auðvaldsflokkarnir eru ekki, eins og sýndi sig til dæmis í búsáhaldabyltingunni. Þetta skiptir verulegu máli í ýmsu samhengi.

(2) Önnur leið til túlkunar á þessum óskum almennings er að skoða þær eins og þær séu greyptar í stein og gera úr þeim upphaf og endalok pólitískrar stefnu vinstrihreyfingarinnar. Öfl sem vilja mynda róttækan umbótaflokk eru líkleg til að fara þá leið. Ég held að það sé varhugavert af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess að með slíkri pólitískri nálgun er mjög flókin og margbreytileg vitundarþróun, sem iðulega er raunar mótsagnakennd og ruglingsleg, samofin afturhaldshugmyndum, fest niður í stífar skorður. Raunar er þetta vitund sem er á einhverri leið, og sú leið mótast á endanum af úrslitum stéttabaráttu sem enn hefur ekki hafist svo heitið geti. Á pólitískri vitund vinnandi fólks verða alltaf breytingar – markmiðið getur ekki verið að frysta þær, heldur að hafa áhrif til góðs, beina þeim í uppbyggilega farvegi baráttu sem eflir samtakamátt og slagkraft hreyfingarinnar í heild. Setjum svo að róttæk umbótastjórn komist til valda og reyni að útfæra annað prógramm en niðurskurðinn – sem er væntanlega óskastaðan. Hún gerir áætlanir um að hefja heilbrigðiskerfið og menntakerfið aftur til vegs, greiða betri laun til að halda sérmenntuðu vinnuafli í landinu, bæta hag þeirra sem misst hafa atvinnu eða búa við örorku, ellilífeyrisþega, o.s.frv. Hún hækkar skatta á fjármagn og veiðigjöld – og hættir einnig að sólunda fé í NATO-samstarfið ef hún er verulega dugandi. En um leið og hún lætur til skarar skríða mun hún, eins og áður sagði, mæta heiftarlegri mótspyrnu fésýsluaflanna, og þegar fólk sér það samhengi ljóslifandi fyrir framan sig þróast skoðanir þess áfram til vinstri – jafnvel geta þær þróast til andstöðu við kapítalismann sem slíkan. Róttækur umbótaflokkur er þá líklegur til að draga lappirnar og haltra á eftir fjöldanum, verður umhugað um að halda einingu innan sinna raða, og hættir að leika leiðandi hlutverk; á hinn bóginn lítur fjöldinn til flokksins sem leiðandi afls. Það er afar hættulegt ástand sem auðvaldsöflum er í lófa lagið að nýta sér, sérhagsmunum sínum til framdráttar. Róttæk umbótastefna vill aðeins fara hálfa leiðina. Til að snúa alveg við efnahagsstefnunni þarf raunar að brjóta vald og vilja auðvaldsins á bak aftur; og á því guggna einatt róttækir umbótasinnar.

(3) Sósíalistar líta hins vegar á þarfir fjöldans og pólitíska vitund á hverjum tíma sem grundvöll baráttu, taka þátt í þeirri baráttu og leitast við að beina henni í farveg sívaxandi einingar allrar stéttarinnar í baráttu. Þeir líta ekki á núverandi vitund fjöldans sem endanlega mótaða, heldur reyna að átta sig á henni og skilja hana til þess að hafa áhrif á hana, og vinna jafnframt gegn hvers kyns afturhaldshugmyndum sem aftra skipulögðum styrk stéttarinnar. Í stuttu máli, að snúa henni til alhliða andstöðu við allt auðvaldskerfið, þ.e. til sósíalískrar baráttu. Baráttu vinnandi fólks fyrir einföldum og brýnum hagsmunamálum sínum getur ekki lokið nema fullnaðarsigur náist á auðvaldsöflunum, raunar á heimsvísu. Sósíalísk barátta í þessu landi er einungis hluti baráttu sem fram fer um allan heim gegn kerfi sem alls staðar hefur hreiðrað um sig.

Búsáhaldabyltingin og breiðfylkingin

Í rás búsáhaldabyltingarinnar varð til eins konar breiðfylking Samfylkingar, VG, anarkista og alls konar heimilisleysingja á vinstrivængnum, o.s.frv. Að þessu var sérstæður aðdragandi, þ.e. langvarandi mótmæli sem miðuðu að því að leysa upp þáverandi samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það þurfti meira en lítið til að Samfylkingin skildi sinn vitjunartíma og ryfi stjórnarsamstarfið, því tugþúsundir höfðu mótmælt áframhaldandi setu ríkisstjórnarinnar mánuðum saman þegar það loksins gerðist eftir mikið lokadrama.

Mótmælaaldan í apríl var í raun tilraun til að endurtaka leikinn á grundvelli sams konar óyfirlýstrar breiðfylkingar og varð til í rás Búsáhaldabyltingarinnar – en að þessu sinni var Samfylkingin með frá byrjun, svo og smáborgaralegu öflin. Mörg tilefni höfðu gefist langalengi til að hefja baráttu gegn stjórninni á pólitískum grundvelli, ekki síst undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, en þau voru lítt eða ekki notuð. Um hríð var þó raunar reynt að hefja runu mótmælafunda á mánudagskvöldum (í nóvember 2014), en það varð endasleppt, og réði því naumast nokkur hending: engin heildarstefna lá fyrir um aðra forgangsröðun í ríkisfjármálum og hvaðeina annað. Vinstriflokkarnir í stjórnarandstöðu hefðu þá átt að sjá í hendi sér að slíkt vantaði, en aðhöfðust ekki.

Þeir settu hins vegar afl sitt á bak við mótmælin í apríl, um sams konar kröfur og eftir hrun – að ríkisstjórnin færi frá og efnt yrði til kosninga. Mótmælaaldan fór af stað á andartaki sem hentaði Samfylkingunni og hinum flokkunum á þingi sem halda að þeir séu í stjórnarandstöðu, en hafa ekki stefnu um algert fráhvarf frá einkavæðingu og niðurskurði, uppbyggingu á heilbrigðis- og menntasviði, o.s.frv. og vilja ekki efna til mótmælaöldu um beinar félagslegar og pólitískar kröfur, einfaldlega vegna þess að þá væru hendur þeirra bundnar – þeir væru búnir að skuldbinda sig vinnandi alþýðu í landinu. Það vilja þeir ekki gera, enda væru þeir þá jafnframt búnir að skuldbinda sig til að fylgja pólitískri stefnu  sem gengur þvert gegn vilja og hagsmunum íslenskrar ráðastéttar.

Að endurvekja sams konar breiðfylkingu á þessum „ópólitísku“ forsendum er ekki til neins. Þetta samflot er búið spil og skilar bersýnilega engu nema ósigrum og áföllum sem þjóðinni er svo kennt um jafnharðan. Róttækir vinstrimenn hljóta að staldra við ófarirnar í apríl og draga af þeim lærdóm. Við þurfum að hugsa sjálfstætt, hætta að bíða eftir því að vinstriflokkarnir á þingi geri eitthvað, hætta að elta þá. Annars endum við í garðinum hjá Bjarna Benediktssyni að grilla pylsur og spekúlera í tilganginum – nú, eða heima í fýlu, eins og sá sem þetta ritar (ég tók þátt í mótmælum fyrst í stað, en missti áhugann þegar ég sá hvernig landið lá). Við getum betur. Það er þrátt fyrir allt í okkar valdi að hætta að hanga í skottinu á krötunum og móta í staðinn sjálfstæða pólitík vinnandi alþýðu til hagsbóta. Það er einföld staðreynd að við höfum ekki gert það enn.

Það mátti raunar sjá fyrir að mótmælaaldan gæti ekki annað en fjarað einfaldlega út, og við róttæklingarnir hefðum séð það fyrir ef við hefðum haft okkar eigin samtök og hefðum haft ráðrúm til að velta stöðunni fyrir okkur í sameiningu sem sjálfstæð pólitísk samtök. Það sem meira er, löngu áður hefðum við getað gengið á „vinstriflokkana“ og spurt hvað þeir hyggist fyrir, og hvort þeir vilji ekki taka þátt í mótmælum alls vinnandi fólks um endurreisn heilbrigðiskerfisins, með skýrum kröfum um snarlækkaða kostnaðarhlutdeild sjúklinga, auknar fjárveitingar til menntakerfisins, o.s.frv. Niður með niðurskurðinn, einkavæðinguna í einkalífið. Ef Samfylkingin hefði neitað að taka þátt hefði það afhjúpað dáðleysi þeirra; ef þeir hefðu tekið þátt hefði það styrkt mótmælin og gert stjórnmálamönnum í öllum flokkum erfiðara fyrir að halda áfram á niðurskurðarbrautinni. Fólk tekur eftir framtaki sem þessu. Áhugi hefði vaknað á litlu samtökum róttæklinganna sem brutu ísinn. En þetta var ekki hægt. Svona samtök voru ekki til.

Það þarf sósíalísk baráttusamtök

Vinnandi alþýða í þessu landi á vissulega flokka sem segja henni að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Slíkur málflutningur er skiljanlegur og fyllilega réttmætur í samhengi baráttu gegn hatursáróðri. Öðru máli gegnir þegar við launafólkið eigum ekki bara að vera kammó og góð hvort við annað, heldur líka (og raunar umfram allt annað) að vera vinir auðmagnsdýranna sem ætla sér ekkert annað en nota völd sín í eigin þágu og gegn okkur, og munu aldrei gera annað en einmitt það, vegna þess að það er nú einu sinni þetta sérhagsmunapot og auðsöfnun sem öll tilvera auðvaldsins snýst um. Hvað annað höfum við haft fyrir augunum allt frá hruni en margítrekaða staðfestingu á þessu?

Við vitum að í hópi foringja íslenska auðvaldsins eru menn sem telja ekki eftir sér að sitja í ríkisstjórn og svíkja jafnframt sama ríki um skatt. En ráðherrarnir eru ekki einsdæmi. Hér býr lítil þjóð, og auðvaldið er aðeins brot þjóðarinnar. Íslenskir aðilar voru með rúmlega 600 aflandsfyrirtæki. Hvað segir þessi tala okkur? Þessi tala segir okkur ekki að við þurfum að búa til „betri“ kapítalisma – „siðvæða“ viðskiptalífið eða stefna að „grænum kapítalisma“. Það er alveg ástæðulaust að elta ólar við ferhyrnda hringi. Talan segir okkur hvað kapítalisminn er og hvernig hann starfar; og jafnframt hvað það er sem kratar vilja laga sig að og kalla „ábyrga“ efnahagsstefnu. Ábyrgð er alltaf ábyrgð gagnvart einhverjum – með leyfi að spyrja: gagnvart hverjum er þessi ábyrgð ef hún er skoðuð til hlítar? Og hver ber hana?

Einn vandinn sem við blasir, hérlendis og erlendis, er ofboðsleg og sívaxandi misskipting auðs. Hvað er til ráða ef öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir? Ætti að semja við kapítalistana í vinsemd um að afsala sér verulegum hluta auðæfa sinna? Sjá menn fyrir sér slíkar samningaviðræður? Eða á að setja ný lög sem virka þannig á einhverjum tíma? En það kemur í sama stað niður. Kapítalistarnir munu telja að sjálfum sér vegið og neyta allra ráða til að hrinda slíkum „ólögum“. Þeir munu fá herskara hagfræðinga og lögfræðinga til þess að halda því fram að slík lög standist ekki og séu efnahagslega stórhættuleg. Og vert er að muna þá einföldu staðreynd að þeir hafa völd og peninga til að bregðast við svona aðstæðum eins og öðrum – ekki við. Þeir eiga líka hauka í horni í alþjóðastofnunum á borð við AGS, ESB, Evrópubankanum o.s.frv. – ekki við. Ef auður þeirra er í raunverulegri hættu sjá þeir raunar enga ástæðu til annars en að nota ofbeldi til að bægja henni frá ef allt annað þrýtur; þeir líta nú einu sinni á auð samfélagsins, afraksturinn af erfiði kynslóða vinnandi fólks, sem sinn auð, sína einkaeign.

Til að mæta félagslegu, pólitísku og efnahagslegu valdi auðmagnsins þarf vald, og það vald lúrir í baráttu- og samtakamætti vinnandi fólks. Sósíalísk bylting snýst ekki um blóðsúthellingar, eins og í hryllingssögum auðvaldsins. Bylting er einfaldlega réttnefni um þá grundvallarbreytingu allrar samfélagsgerðarinnar sem nauðsynleg er til að stuðla að betra lífi á jörðinni, og kallar á það að rífa niður allt valdakerfi auðmagnsins. Það verður að segja hlutina eins og þeir eru. Ef þetta á að vera hægt verður að svipta ráðastéttina því valdi sem hún annars beitir til að stöðva framgang hinna róttæku afla.

Við þurfum að beita okkur gegn hægriöfgunum, sem hluti af vinnandi alþýðu í þessu landi, og eftir því sem okkur vex ásmegin skapast þrýstingur á umbótasinna að spila með. Aldrei að treysta þeim, en pína þá til að leika rullu sem gerir gagn og sameinar vinnandi fólk í baráttu fyrir áþreifanlegum markmiðum.

Fyrstu verkefni sósíalískra baráttusamtaka

Veruleg sóknarfæri – meiri en verið hafa í áratugi – kunna að vera framundan, vegna langvarandi kreppu auðvaldskerfisins í heiminum. Sósíalísk barátta miðar að algerum þáttaskilum í sögunni. Hún er allt annað en auðveld, hún snýst einmitt um það að alþýða manna fari að líta á stjórnmálin sem sín mál, sitt skylduverk. Sósíalísk pólitík er stéttbundin baráttupólitík. Stéttabarátta liggur enn niðri, og sú staðreynd ein sér dregur mátt úr allri vinstrihreyfingunni. Mátt stéttarlegrar samstöðu finna menn ekki nema hans sé neytt í verki, og sósíalískir hópar geta ekki hrint slíkri stéttarbaráttunni af stað að vild. Verizon-verkfallið í Bandaríkjunum, með öðru, gefur tilefni til að ætla að þessi máttur verði aftur virkjaður innan tíðar. Verðum við tilbúin þegar íslensk verkalýðsstétt tekur loks við sér á ný?

Án sósíalísks flokks sýnist mér ekki hægt að rjúfa endanlega þennan vítahring sem íslenska auðvaldið leikur nú á, en slíkur flokkur er vandbyggður, og ég held að hér verði að byrja alveg frá grunni. Áður en ráðist er í stærri verkefni þarf að búa til lítinn hóp, lesa og læra af sögu sósíalískrar hreyfingar, móta stefnu sem gerir hópnum smám saman mögulegt að grípa inn í stjórnmálin og afla sér félaga. Þetta eru lítil verkefni og hógvær, kannske þolinmæðisverk. En afl okkar er lítið sem ekkert núna, og verður það fyrirsjáanlega áfram ef þetta er ekki gert. Sjálfsprottnar hreyfingar geta stundum gosið upp um einstök mál á ótrúlegum hraða, en þær hverfa jafn skjótt og ekkert stendur eftir, enginn skipulagsbundinn, pólitískur ávinningur sem hægt er að nota í baráttunni sem þá tekur við.

Ef einhver okkar stíga fyrstu hógværu skrefin á þessari braut munum við fá að heyra að við séum helvítis kommúnistar og höfum ekkert lært af sögu 20. aldar. En engu stjórnmálaafli er eins mikið kappsmál að læra af sögunni og byltingarsinnuðum sósíalistum, og ekki síst að leggja mat á vegferð rússnesku byltingarinnar – þar sem Frankenstein tók völdin að lokum, eins og Einar Már Guðmundsson sagði forðum. Af slíku mati má mikið læra, og raunin er sú að sósíalistar út um heim, ekki síst í International Socialist hefðinni, hafa þar mikið gagnlegt fram að færa. Við þurfum að átta okkur á því sem aflaga fór á liðinni öld og geta svarað spurningum um þá hluti, það er eðlilegur hluti af því að færa fram trúverðuga sósíalíska stefnu. Um Rússland sérstaklega vil ég benda á ritgerð Chris Harman, „How the Revolution was Lost“ frá 1967, sem mér virðist ágæt til yfirlits og íhugunar.

Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Arfleifð sósíalískrar hreyfingar er rík að lærdómum, og við þurfum að skilja þá til að ná árangri. Til að vinsa úr langri sögu og flókinni þarf gagnrýnið viðmið. Besta viðmiðið sýnist mér vera það að greina skipulega á milli tveggja ólíkra þráða sem tekist hafa á í sögu sósíalískrar hreyfingar; skylt er að vísa hér til ritgerðar eftir bandaríska sósíalistann Hal Draper frá 1966, „Two Souls of Socialism“, sem er auðfundin á netinu. Draper var ef til vill óþarflega dómharður í sumum þeirra sögulegu dæma sem hann ræðir, en það er skilningsmátinn sjálfur sem ég vek athygli á, greinarmunur hans á „sósíalisma að ofan“ og „sósíalisma neðan frá“. Tengsl sósíalista og fjöldahreyfingar eru lykilatriði þeirrar greiningar. Í sögu sósíalískrar hreyfingar er að finna fjölmörg dæmi um hugmyndir, sumar mjög afdrifaríkar, um „sósíalisma að ofan“. Fyrir daga Marx voru slíkar hugmyndir alveg ráðandi í röðum þeirra sem nefndu sig sósíalista. Sérstaða Marx birtist vel í þessum orðum hans: „Frelsun verkalýðsstéttarinnar verður að vera verk hennar sjálfrar“. Hugmyndin er hér sú að stéttin sjálf taki völdin og fari með völdin – enginn gerir það fyrir hana. Það sem sósíalísk pólitík „neðan frá“ snýst um er því þetta: vinnandi alþýða þarf að hafa pólitíska og skipulagslega burði til þess að ná og halda pólitískum völdum. Stéttin getur ekki stjórnað samfélaginu eins og hún er í dag. Hún þarf því að verða að afli sem hún er ekki í dag, og það gerist ekki af sjálfu sér. Leiðin þangað er leið sjálfsumbreytingar í baráttu.

Gegn slíku sjónarmiði hafa á ólíkum tímaskeiðum orðið til nýjar gerðir hugmynda um „sósíalisma að ofan“. Sósíaldemókratían og stalínisminn skipta mestu máli vegna sögulegra áhrifa sinna. Þeir hörmulegu ósigrar sem urðu á fjórða áratug síðustu aldar, sérstaklega valdataka fasista í Þýskalandi og á Spáni, eru að miklu leyti rekjanlegir til pólitískra áhrifa þessara strauma meðal verkafólks. Þessir ósigrar voru ekki óhjákvæmilegir, en byltingarsinnaður sósíalismi átti í vök að verjast vegna gagnbyltingarframvindu í Rússlandi áratuginn á undan. Nú er stalínisminn blessunarlega orðinn áhrifalaus. Engum dettur í hug að líta til Norður Kóreu eða Kína sem fyrirmyndar; annars staðar er harðstjórnarvald hans sem betur fer hrunið. Sósíaldemókratían stríðir við djúpa kreppu. Tilhneigingar verður vart að reyna að finna einhvers konar millistig byltingarstefnu og hægrikratismans, sem nú má heita alveg gjaldþrota, það sem ég hef hér kallað róttæka umbótastefnu og ég er vissulega ekki trúaður á slíkt. En andstæðingurinn er svo sannarlega annar. Andstæð öfl umbótastefnunnar takast nú á í Verkamannaflokknum breska. Byltingarsinnaðir sósíalistar standa ekki hjá í þeim átökum, hvar sem þeir eru niður komnir, heldur styðja Jeremy Corbyn eindregið, og taka undir margt sem hann hefur að segja.