Mannleg vinna í fræðum Marx, 1. hluti

Vinnuhugtakið er engan veginn sjálfgefið. Framleiðslustarfsemi manna getur verið af margvíslegasta tagi og spannar allt frá leirkerasmíði Assýringa að fornu eða púðurframleiðslu Kínverja á 13. öld til rauðvínsgerðar í Bourdeaux, hljómtækjaframleiðslu í Japan eða kartöfluræktar í Þykkvabæ, og þannig mætti endalaust telja áfram. Ef við reyndum að hugsa okkur mengi allra hinna hluttæku vinnuferla yrði því fyrir okkur afskaplega fjölskrúðugt safn, og reynsluheimur framleiðendanna að sama skapi gjörólíkur, eins og nærri má geta. En þar að auki má hugsa sér að nálgast efnið eftir ýmiss konar fræðilegum leiðum eða nálgunum. Það er því ekki vandalaust að ræða um vinnu eða framleiðslu án frekari skýringa. Marx fer ákveðna leið í þessu efni sem miklu varðar að skilja.

Sértak framleiðslunnar nefnir Marx gjarnan mannlega vinnu í síðari ritum sínum.[1] Kjarni þess er þegar til staðar í Parísarhandritunum (1844) og leikur þar mikilvægt hlutverk, en hugtakakerfi hans um gagnrýni þjóðhagfræðinnar er þá enn á algeru frumstigi, og orðið vinnu hefur hann í skilningi þjóðhagfræðinnar að segja má: hann á við firrta vinnu og hið sögulega verkefni öreiganna er þess vegna, líkt og í Þýsku hugmyndafræðinni (1845-1846) afnám vinnunnar.[2]

Framsetning hans á sértaki mannlegrar vinnu er orðin miklu skýrari í Auðmagninu (1867), en þar segir hann:

Vinnan er umfram allt […] ferli þar sem maðurinn miðlar efnaskiptum sínum og náttúrunnar um athafnir sínar, reglubindur þau og hefur á þeim taumhald fyrir tilstuðlan eigin athafna. Hann tekst á við efnivið náttúrunnar sem náttúruafl. Hann virkjar náttúruöflin sem búa í líkama hans sjálfs, handleggi, fætur, höfuð og hendur, til þess að gera efnivið náttúrunnar að sínum, á formi sem lagað hefur verið að þörfum hans. Með þessari hreyfingu verkar hann á hina ytri náttúru og breytir henni og breytir með þessum hætti jafnframt sínu eigin eðli. Hann laðar fram möguleikana sem blunda í náttúrunni, og setur leik náttúruaflanna undir yfirráðavald sitt. […] Vinnuferlið, eins og við höfum nú kynnt það með tilliti til einfaldra og sértækra þátta þess, er markmiðsbundin virkni sem miðar að framleiðslu notagilda. Það er aðlögun þess sem til er í náttúrunni að þörfum mannsins. Það er altækt skilyrði efnaskipta manns og náttúru, ævarandi náttúruþvingað skilyrði mannlegrar tilveru, og er þess vegna … sameiginlegt öllum samfélagsformum sem menn lifa við.[3]

Það er vert að staldra nokkuð við og skoða ólíkar hliðar á þeirri hugmynd um mannlega vinnu sem kemur fram í þessum orðum.

Fyrst er þess að geta að Marx hugsar sértak vinnunnar sjálft sem sköpun notagilda. Það er sem sé skilgreiningaratriði um alla vinnu að hún miðar að því að skapa notagildi; menn geta tekið sér allt mögulegt fyrir hendur, en vinna ekki að nauðsynjalausu; fyrirhuguð niðurstaða hvers vinnuferils, afurðir vinnunnar, eru því hlutir sem svala einhverjum þörfum manna á hverjum tíma. Þetta virðist eiga við um alla framleiðslustarfsemi, hvar og hvenær sem er. Í þessu vinnuhugtaki eru sérteknir þættir sem einkenna alla vinnu, alltaf og ævinlega, hvert sem samfélagsformið kann að vera, og fyrst og fremst er því slegið föstu að hún er alltaf ætluð til þess að svala einhvers konar þörfum. En ef nánar er að gáð er raunar ekki sértekið frá öllu sögulegu eða félagslegu samhengi, því vinna manna hlýtur raunar alltaf að vera félagsleg starfsemi, hvernig sem félagslegri umgjörð hennar er svo hagað.

Í framleiðslu verka menn ekki einungis á náttúruna, heldur og hverjir á aðra. Þeir framleiða aðeins með því að starfa saman á ákveðinn hátt og skiptast á störfum. Til þess að framleiða koma þeir á ákveðnum tengslum og afstæðum sín á milli, og verkanir þeirra á náttúruna, framleiðslan, er bundin þessum félagslegu tengslum og afstæðum.[4]

Með nákvæmara orðalagi eru sérteknir þeir sameiginlegu þættir vinnuferla sem notagildasköpunar sem ekki binda þá einstökum sögulegum framleiðsluháttum. Það er því er undirskilið að vinnan sé alltaf félagsleg starfsemi, hún er alltaf virkni (einhvers konar) félagsveru. Í öllum hluttækum, raunverulegum vinnuferlum hafa menn skipað sér um framleiðsluna á einhvern hátt og þar hefur því einnig myndast einhver tiltekin afstaða þeirra hvers til annars, hvernig sem henni er annars nákvæmlega farið hverju sinni.

Gætum einnig að hinni ríku áherslu sem Marx leggur á að vinnan sé tilgangsferli, og það undirstrikar hann enn frekar með þessum orðum:

Kóngulóin hefst líkt að og vefari, og býfluga hólfar hunangskúpu sína þannig að margur byggingameistarinn mætti blygðast sín. En það sem skilur á milli slakasta byggingameistarans og snjöllustu býflugunnar er að hann byggir herbergin í huganum áður en hann mótar þau í vax. Í lok hvers vinnuferlis birtist niðurstaða sem vinnumaðurinn hafði þegar hugsað sér við upphaf þess, og var þannig þegar til staðar í hugsýn. Maðurinn áorkar ekki aðeins því að formbreyta náttúrulegum efnivið, heldur raungerir hann sín eigin markmið í efniviðnum. Og þetta er markmið sem hann er sér vitandi um, það ræður því með strangleika lögmálsins hvernig hann hagar starfi sínu, og hann verður að beygja vilja sinn undir það.[5]

Í vinnunni raungerir maðurinn markmið sín og skapar nýjar afurðir. Til þess þarf hann að geta beitt sig umtalsverðum aga, hafa hemil á hvers kyns tilfallandi löngunum, tilfinningum, hvötum, o.s.frv. og halda sig við að setja af stað viðeigandi orsakakeðju.[6] Þannig mætti segja sem svo að vinnan sé tæknilega rökvísleg athöfn, og Jürgen Habermas hefur greint hana sem slíka frá athöfnum sem fela í sér það sem hann nefnir samskiptarökvísi.[7] Naumast er þetta alveg úr lausu lofti gripið, því framkvæmd vinnuferlis hlýtur einmitt að vera hagað þannig að hún skili réttri niðurstöðu, hlutnum sem framleiða á. En það sem fyrir Marx vakir er þó vel að merkja ekki að draga einfaldlega fram mun ólíkra kjörmynda („ídealtýpískan“ greinarmun), almenn flokkunarfræði, heldur að skilja verufræðilega þýðingu vinnunnar. Keppikefli hans er í minni mæli það að flokka athafnir manna niður í ólíkar sortir og greina vinnuathafnir almennt frá öðrum tegundum athafna en að varpa fram kenningu um það hvernig veruleiki vinnunnar hefur þróast í samspili við samfélagshætti manna.

Þarfir manna eru skilgreiningaratriði um vinnu, sögðum við. En þær eru ósköp prósaískur veruleiki og raunar af margbreytilegasta tagi; það er auðsætt að þær hafa tekið miklum breytingum í sögunnar rás. Við teljum okkur þurfa æði margt sem enginn hafði minnsta hugboð um á fyrri tímum, og til dæmis kvað vera illt að hafa engan snjallsíma. Ekki verður samt greint af heimildum að Júlíus Sesar hafi vanhagað um slíkt apparat þegar hann herjaði á Galla, svo dæmi sé nefnt; og jafnvel þótt honum hefði einhverju sinni orðið hugsað til þess að gott væri að geta haft samband alveg á stundinni við Pompejus í Róm – eða kannske einhverja menn aðra – hefði það aðeins verið hugboð hans, ekki áþreifanleg þörf sem hægt hefði verið að bregðast við, t.d. með vinnu. Við getum líka orðað þetta öðruvísi og sagt sem svo að til þess hafi ekki verið neitt framleiðsluafl.

Þessi sögulega vídd er einmitt alltaf undir hjá Marx, einnig þegar hann skilgreinir sértök sín, t.d. það sértak mannlegrar vinnu sem við erum hér að skoða. Hann leitast því umfram allt við að skoða vinnuna sem sköpun, virka umbreytingu manns og náttúru. Á þeirri sköpun má greina tvær meginhliðar, þ.e. nytjahorf og mennskuhorf sem við getum svo kallað.[8] Um nytjahorf vinnunnar höfum við þegar fjallað – menn vinna ekki út í bláinn, heldur til að svala þörfum sínum, búa til notagildi, þ.e. breyta náttúrulegum hlutum í nytjahluti. Þannig felst í vinnuferlinu sköpun hluta sem ekki voru til staðar við upphaf þess. Leiða má að því líkur að fyrsta viðleitni hins verðandi manns hafi verið næsta fálmkennd og lítils megnug, en í rás þróunar mannsins vindur fiktið upp á sig, og smám saman er öllu hinu náttúrulega umhverfi mannsins á jörðinni breytt í gríðarlegum mæli.

En þetta nytjahorf vinnunnar segir raunar ekki hálfa söguna. Vinnan, „efnaskipti manns og náttúru“, eins og Marx lýsir henni tíðum, er ekki aðeins sköpun hluta og umbreyting ytri náttúru, því maðurinn breytir raunar sjálfum sér, skapar sjálfan sig á vissan hátt, fyrir milligöngu vinnunnar. Þetta er mennskuhorf vinnunnar, og það má svo aftur tvígreina. Annars vegar breytir vinnan einstaklingnum sem hana stundar og er af hans hálfu meðvituð starfsemi þar sem hann beislar náttúruna í sjálfum sér (tilfinningar, hvatir og langanir, eins og áður sagði), þroskast og eykur mennt sína, ef svo má segja, jafnhliða því að hann sveigir hina ytri náttúru undir vald sitt. Hins vegar er vinnan raunar alltaf félagslega skipulögð á einhvern hátt, virkni félagsveru, og tekur því jafnan til einhvers háttar mannsins á að skipa sér í afstöðu til annarra manna, eins og áður var getið.

Drögum saman í stuttu máli það sem fram er komið til þessa: (a) Vinnan er sköpun hluta, þ.e. notagilda. (b)(i) Vinnan breytir hinum vinnandi einstaklingi sem beislar náttúruna í sjálfum sér jafnframt því sem hann nær vaxandi tökum á hinni ytri náttúru. (b)(ii) Vinnan er jafnframt ákveðinn háttur manna á að skipa sér í afstöðu til annarra manna, félagsleg starfsemi.

En þetta margbrotna hugtak mannlegrar vinnu leikur einnig mikilsvert gagnrýnið hlutverk í fræðum Marx, einkum í áformi hans um gagnrýni þjóðhagfræðinnar, allt frá því að hann lagði fyrst drög að því í Parísarhandritum sínum, árið 1844. Þannig er engin hending að Marx vék líka að því sérstaklega í Auðmagninu (1867) í kafla sem þegar hefur verið vitnað til. Og í inngangstexta frá 1857 – mitt á milli Parísarhandritanna og Auðmagnsins – sem Marx ætlaði til birtingar í Drögum að gagnrýni þjóðhagfræðinnar (bók sem kom svo út tveimur árum síðar með frægum formála sem einnig verður raunar vitnað til hér á eftir) er einnig fjallað um það. Þar er þetta gagnrýna hlutverk sem ég minntist á afar skýrt.

Þegar við ræðum um framleiðslu er þannig ævinlega átt við framleiðslu á tilteknu stigi samfélagsþróunar, framleiðslu einstaklinga í samfélagi. Það kann því að virðast svo að til þess að færa framleiðslu í tal verðum við annað hvort að rekja hin ýmsu skeið hins sögulega þróunarferlis, eða lýsa öðrum kosti yfir því að við tökum til rannsóknar eitt tiltekið sögulegt tímabil, svo sem til dæmis borgaralega framleiðslu nútímans, sem raunar er umfjöllunarefni okkar. Öll tímaskeið framleiðslunnar hafa þó ákveðin samkenni, sameiginleg hugtök. Framleiðslan almennt er sértak, en vit í því að svo miklu leyti sem það dregur fram og skilgreinir hinar sameiginlegu hliðar svo komist verði hjá endurtekningum. Og þó er þetta almenna hugtak sjálft, eða hið sameiginlega horf sem samanburður hefur leitt í ljós, margskipt og klofið í veru hinna ólíku einkenna þess. Sum einkennin er að finna á öllum tímaskeiðum, önnur eru sameiginleg nokkrum tímaskeiðum. [Sum] einkennin eru sameiginleg hinum nútímalegustu og hinum fornustu. Framleiðslan er óhugsandi án þeirra. En […] þá þætti sem ekki eru almennir og sameiginlegir verður að greina frá hinum sem gilda um framleiðsluna sem slíka, þannig að í einingunni, sem leiðir af þeirri staðreynd að frumlagið, mannkynið, og andlagið, náttúran, er hið sama, týnist eðlismunurinn ekki niður. Öll viska þeirra nútíma hagfræðinga sem sýna fram á að ríkjandi samfélagsafstæður séu einn eilífðar samhljómur liggur í þessari gleymsku. Til dæmis er engin framleiðsla möguleg án framleiðslutækis, þó ekki sé nema handarinnar. Hún er ekki möguleg nema á grundvelli liðinnar, upphlaðinnar vinnu, eins þótt sú vinna sé ekki annað en hæfnin sem endurtekin æfing færir höndum villimannsins. Auðmagn er meðal annars framleiðslutæki, svo og liðin, efnisgerð vinna. Þar af leiðandi eru auðmagnsafstæðurnar eilífar og algildar – að því tilskildu að maður leiði hjá sér einmitt þær sérstöku eigindir sem einar gera „framleiðslutæki“ og „upphlaðna vinnu“ að auðmagni.[9]


[1] Ekki má slá þessu saman við það sem Marx nefnir „sértæka vinnu“, grundvöll skiptagildis vörunnar. Að því verður nánar vikið í síðari hluta þessara hugleiðinga.

[2] Sjá um þetta C.J. Arthur, Dialectics of Labour: Marx‘s Relation to Hegel, Oxford 1986.

[3] Marx, Capital, 1. bindi, Harmondsworth 1976, bls. 283, 290; sjá einnig bls. 133. Das Kapital I, Berlín 1962, bls. 192, 198, 57.

[4] Marx, „Launavinna og auðmagn“, Úrvalsrit I, bls. 141; þýðingu breytt; sbr. Marx, Lohnarbeit und Kapital/Lohn, Preis und Profit, Berlín 1998, bls. 26-27. Texta ísl. þýðingarinnar með nokkrum lagfæringum er að finna á vefsíðu minni, Safni til sögu sósíalískrar hreyfingar: https://ottomasson.wordpress.com/2017/02/28/karl-marx-1849-launavinna-og-audmagn/

[5] Marx, Capital, 1. bindi, bls. 283-284; Das Kapital I, bls. 193.

[6] Umfjöllun Georgs Lukács, The Ontology of Social Being. 3: Labour, London 1980, bregður talsverðu ljósi á þetta samhengi; sjá ekki síst fyrsta hlutann um samband orsaka og tilgengis, bls. 1-46.

[7] J. Habermas, „Technology and Science as „Ideology““, Toward a Rational Society, Boston 1968, einkum bls. 91-94.

[8] Sbr. áðurnefnda bók C.J. Arthur, Dialectics of Labour.

[9] Marx, „Introduction to a Critique of Political Economy“, í The German Ideology (ritstjóri C.J. Arthur), bls. 125-126.

2 thoughts on “Mannleg vinna í fræðum Marx, 1. hluti

  1. Varðandi Sesar og snjallsíma, þá myndi ég frekar ætla að snjallsíminn sé einmitt seinni tíma framköllun á stöðugri samskiptaþörf, sem hefur verið einn af mikilvægustu þróunafræðilegu eiginleikum mannskepnunnar síðan hún þróaði með sér tungumálið. Sesar sjálfur hefur efalaust einhverntímann notað semafóru boðkerfi, sem hefur væntanlega verið hraðvirkasta samskiptaformið sem þeir gátu látið sér detta í hug með þáverandi tækni. Þannig held ég að grunnþörfin sé alltaf til staðar og menn sífellt að þróa leiðir til að svala henni en þær leiðir falli jafnan innan þess ramma sem geta og tækni leyfa.

    Líkar við

    1. Kæri gamli vinur, ég hef ekki alveg gleymt athugasemdinni frá þér! Bestu þakkir. En hún byggir sýnist mér á svolitlum misskilningi og það væri alveg út í loftið að ansa með tilvísunum í síðari, og enn óbirta hluta af þessu verki. Ég hef velt því fyrir mér hvernig best sé að ansa þér og held satt að segja að í bili sé best að taka einfaldlega undir með þér um mikilvægi samskiptanna, og raunar átti það fremur að vera innbyggt í það hugtak sem ég er þarna að greina (taktu eftir efasemdunum sem ég lýsi um greinarmun sem Habermas gerir á vinnu og samskiptum). Þessi fyrsti partur hjá mér er svo sem ekkert annað eða meira en sundurgreining ólíkra hliða á einni og sömu hugmynd, þ.e. „mannlegri vinnu“ eins og Marx skilur hana. Það kemur meira síðar um heimspekilegar hliðar málsins, og þá verður þetta vonandi skýrara.

      Líkar við

Færðu inn athugasemd