Moldviðrin geisa

Það getur nú verið fjári misveðrasamt í pólitík eins og náttúrunni, og stundum gengur til að mynda á með afskaplega þrálátu moldviðri svo varla sést nokkur glóra. Að stríð sem Rússar heyja í Úkraínu verði tilefni máttarvalda á Vesturlöndum til að blása upp slíkum óhroða er umhugsunarefni út af fyrir sig: standa þau ekki annars utan þessara átaka? Hvers vegna er ekki hægt að notfæra sér fjarlægð frá atburðum til að skoða heildarsamhengi þeirra, rökræða það heldur stillilegar í „lýðræðislegum“ anda, reyna að skilja það, taka svo upplýsta afstöðu? Hvers vegna allan þennan ofstopakennda æsing? Ástæðan er sú að Vesturlönd standa raunar ekki utan þessarar atburðarásar. Afstaða vestrænna auðvaldsríkja liggur vitaskuld fyrir. Þau styðja stjórnina í Kænugarði og styðja hana nánar tiltekið með vopnasendingum og einhliða fjölmiðlaherferð.

Öll saga Atlantshafsbandalagsins og hernaðarsaga aðildarríkja þess er ljót og málstaður þess vondur, og afskipti bandalagsins af Úkraínu eru engin undantekning. Moldviðrinu er beinlínis ætlað að koma í veg fyrir gagnrýna skoðun á samhengi atburða og hræða fólk frá því að gagnrýna þátt bandalagsins, skoða umsvif þess á svæðinu, spyrja hvort það sé vænlegur aðili til að koma á varanlegum friði. Það er því ekki úr vegi að byrja þessar athugasemdir á því að skoða innihald óhroðans sem Vesturlönd þyrla upp.

(1) Eitt af því sem þessir andstæðingar okkar vinstrimanna tilfæra er ásökun um „hvaðmeðhyggju“. Þarna er átt við afbrigði þess sem á íslensku hefur löngum verið kallað að drepa málum á dreif. Þegar þessum merkimiða er klínt á vinstrimenn á Vesturlöndum sem eru svo „ófyrirleitnir“ að gagnrýna Atlantshafsbandalagið er átt við þetta: þeir geti aldrei einfaldlega fordæmt innrásina heldur prjóni alltaf við einhverjum málalengingum og flækjum um hliðstæðar aðgerðir annarra ríkja en Rússlands, svo á endanum sé vart hægt að segja að þeir fordæmi innrásina „í raun og veru“. Að baki þessari ásökun virðist einfaldlega búa sú hugsun að ekki sé unnt að réttlæta ofbeldi af hálfu x með tilvísun til ofbeldis sem y hefur einnig haft í frammi – það er einfaldlega óréttmætt hvað sem verkum y líður.

Þetta er vitaskuld alveg rétt eins og við getum séð af einföldu dæmi. Setjum svo – bara í gamni, alveg út í bláinn – að við komumst á snoðir um að valdsmaður sem við skulum kalla Bjarna Benediktsson svíki undan skatti. Ef einhvern skyldi langa til að fordæma framferði hans, þarf hann ekki að setja á langar tölur um annað fólk sem einnig hefur komið fjármunum sínum undan, og þaðan af síður er hægt að afsaka Bjarna með tilvísun til þess að fjöldamargir aðrir geri þetta líka, því það skiptir nefnilega engu máli: Bjarni á bara ekki að haga sér svona. Hann á að borga skatt rétt eins og við launafólkið sem höfum flest hver ekki einu sinni möguleika á skattsvikum.

En við vorum að tala um stríðið í Úkraínu. Hvað það snertir er vert að gæta að því hvar og hvenær þessi ásökun um „hvaðmeðhyggju“ er sett fram: því hún er notuð gegn vinstrimönnum sem hafa einmitt fordæmt innrásina, en lýsa sig jafnframt mótfallna hernaðarumsvifum Atlantshafsbandalagsins á svæðinu. Álit þeirra sem beita ásökunum um hvaðmeðhyggju svona er þannig í stuttu máli að ekki sé hægt að taka mark á andstöðu fólks við stríð Pútíns nema þá og því aðeins að þeir fjalli jafnframt ekki um hugsanlega ábyrgð annarra en Pútíns á því ástandi sem upp er komið í þessu heimshorni.

Þetta er vitanlega ekki sama röksemd og áður var rakin. Raunar er þetta yfirhöfuð ekki gild röksemdafærsla, heldur innantómur orðavaðall og hundakúnstir. Stríð Pútíns er svo sannarlega stríð Pútíns, og án nokkurs vafa afdrifarík ákvörðun. En pólitískt ástand á svæðinu ræðst engu að síður af fleiri þáttum en ákvörðun Rússlandsforseta einni sér, og hvers konar ákvarðanir um hvað eigi að gera í málum, hvaða afstöðu eigi að taka, o.s.frv. hljóta að miðast við mat á hinu pólitíska ástandi í heild og aðdraganda þess. Ef það ætti að koma því heim og saman að vinstrisinnaðir gagnrýnendur Atlantshafsbandalagsins séu raunar stuðningsmenn Pútíns og rússnesku innrásarinnar þyrfti að bæta við aukaforsendu sem aldrei er nefnd. Sú forsenda er að „raunveruleg“ andstaða við Pútín hljóti að vera stuðningur við Atlantshafsbandalagið eða alltént þögult samþykki við umsvifum þess á svæðinu.

Þannig má ráða af gloppu í „röksemdinni“ sjálfri að átökin verði naumast rædd án þess að huga að þætti bandalagsins. Henni er ætlað að fela þá innantómu og augljósu hræsni að fordæma það sem Rússar nú gera – að ráðast inn í annað fullvalda ríki – en fordæma ekki sama verknað þegar Bandaríkin framkvæma hann með margföldum mannlegum fórnarkostnaði; og umfram allt er henni ætlað að drepa á dreif annarri spurningu sem snýr ekki aðeins að þeim sem eiga í stríðsátökum, heldur einnig að okkur Vesturlandabúum sjálfum: er Atlantshafsbandalagið hluti lausnarinnar eða hluti vandans?

(2) Annar þátturinn er kenningin um óheilaga þrenningu. Þegar rússneski herinn hóf innrásina barst óðara yfirlýsing frá Bandaríkjaforseta þar sem sagði að hún hafi verið „unprovoked“. Það er spurning hvernig eigi að skilja slíkt orðalag, en Biden virðist eiga við að ekkert hafi áður átt sér stað sem skýrt geti ákvörðun Pútíns, og hún sé því tekin upp úr þurru. Stærri fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa síðan, af einhverjum völdum, gert þetta að einkunnarorðum sínum í allri umfjöllun um stríðið: það sem máli skiptir er aðeins eitt, nefnilega sú staðreynd að Pútín tók þessa ákvörðun án tilefnis, upp úr þurru; allar frekari vangaveltur um ábyrgðina á því hvernig málum er nú komið eru skoðaðar sem einhvers konar svik við Úkraínubúa, jafn undarlegt og það nú er.

Eftir þessari hugsun, í anda Bidens, verður ákvörðun Pútíns því ekki skýrð nema með því að skyggnast í myrkviði sálarlífs hans … en viti menn! Til allrar hamingju liggur niðurstaðan úr þeim skuggalega leiðangri einmitt þegar fyrir! Meginatriðin eru sem hér segir: Pútín er (1) geðveikur; (2) vondur; og (3) þríeinn eins og almættið, því hann er nefnilega í alvörunni Hitler, eins og Saddam Hussein var líka forðum.

Það er aldeilis ekkert slor að hafa svona vandaða og trausta kenningu um orsakir hildarleiksins; og hún er svo áreiðanleg að það er ekki aðeins óþarfi heldur beinlínis ljótt að skoða hana nánar. Okkur er einfaldlega ekkert að vanbúnaði að vinda okkur óðara í matið á stríðinu, og þar ber að halda sig við að skoða það í siðferðilegu ljósi – umfram allt ekki pólitísku ljósi eða efnahagslegu, enda gæfi það tilefni til alls konar athugana og deilna sem leiða ekki endilega til „réttrar“ niðurstöðu. Við blasir að frá siðferðilegu sjónarmiði er ákvörðun Pútíns ekki aðeins ámælisverð, heldur blátt áfram forkastanleg, auk þess sem hún fer í bága við alþjóðalög. Hvaða þýðingu skyldi það nú hafa að fella siðadóma um gjörðir geðveiks illmennis, getur hann talist siðferðisvera, er hann ábyrgur gjörða sinna? Það hefur vitanlega ekki aðra þýðingu en þá að manninn verði að stoppa í því að gera frekari skaða. Þess vegna kemur ákallið svo umsvifalaust: Meiri framlög til hergagnaframleiðslu! Meira af vopnum! Meiri viðbúnað af hálfu Atlantshafsbandalagsins og aðildarríkja þess!

Óþarfi svo sem að taka það fram … en látum aðrar meðfylgjandi hugmyndir um ríkisútgjöld fljóta með sisvona í gamni: skítt með almenningsheilbrigði, niður með menntun, bótakerfi og allan slíkan hégóma. Það kostar nefnilega pening. Öll er þessi hugsun afar skynsamleg, og svo heppilega vill til að svona ráðagerðir koma óligörkum vestræns kapítalisma ljómandi vel.

Vitanlega halda menn áfram að prjóna við þessa hugsun af öllu því hyggjuviti sem þeir geta kreist fram, sumir af veikum mætti, og hefur verið stungið upp á því að einhver í Guðs bænum myrði Pútín, enda verði heimurinn þá loks betri. Þannig mæla siðapostular vorra tíma; þeir vita að boðorðin binda aðeins hendur andstæðinga sinna, ekki þeirra sjálfra. Aðrir vitringar, eins og til dæmis hinn ábyrgi og trausti vinur Vesturlanda, Selenskí, forseti Úkraínu, hvetja til þess að Atlantshafsbandalagið tryggi flugbann yfir Úkraínu,þ.e. blandi sér beinlínis í vopnaskakið sjálft þótt augljóst virðist að það leiði til kjarnorkustríðs. Joe Biden kveðst að vísu ekki geta orðið við þessari bón en er svo elskulegur að dæla vopnum í Selenskí til að draga átökin á langinn, enda deyja þá fleiri rússneskir og úkraínskir hermenn, svo og úkraínskir borgarar, og allir geta verið ánægðir. Bandaríkjastjórn borgar og úðar í sig poppkorni.

(3) Enn er ónefndur alveg ómissandi uppistöðuþáttur í moldviðrinu. Ef þvættingurinn sem ég hef rakið hér á undan á að hafa tilætluð áhrif þarf fólk helst að vera skelkað og í uppnámi, þá virkar ruglið betur. Til að renna stoðum undir þá kenningu um orsakir hildarleiksins að Pútín sé sturlað illmenni, sprottið alskapað úr gömlu hasarblaði, var strax tilfærð meint hótun hans um beitingu kjarnorkuvopna. Pútín hafði nefnilega sagt í ávarpinu sem var sent út í þann mund að innrásin hófst að öll hernaðarafskipti aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hefðu þegar í för með sér „afleiðingar án fordæma í ykkar sögu“. Franski utanríkisráðherrann, Jean-Yves La Drieu, ansaði þessu í hendingskasti og minnti á að Rússar væru ekki eina kjarnorkuveldið … jafn gáfulegt og það nú er, því naumast hefur maðurinn haldið að Pútín vissi það ekki. Orð Pútíns hafa digurbarkalegan og harkalegan tón, þau eru stríðstal. En hvað skyldu þau merkja? Af þeim má auðveldlega ráða að ekki sé verið að hóta því sérstaklega að beita kjarnorkuvopnum. Gleymum því ekki að beiting þeirra í stríði væri einmitt ekki fordæmalaus, eins og Pútín veit jafnvel og við öll; hann veit líka mætavel hvaða ríki hefur beitt þeim, hvar og hvenær. Orð hans merkja einfaldlega þetta: „Ef einhver abbast upp á Rússa verður hann sko barinn í buff,“ eða eins og þessi hugsun er líka stundum orðuð: „Pabbi minn er lögga“. Þetta er ekki merkileg hugsun og orðin ekki heldur. Pútín hafði tekið ákvörðun um að hefja stríð og ekki varð aftur snúið; hann stendur við ákvörðun sína og lætur ekkert röfl stöðva sig í að ná markmiðum sínum. Önnur yfirlýsing nokkrum dögum síðar merkir nákvæmlega það sama. Ef einhver ræðst á Rússland verður því svarað af fullri hörku, með kjarnorkuvopnum ef því er að skipta. Í stuttu máli: árásum verður svarað.

Slegið er upp getgátum um að Pútín sé ofsóknarbrjálaður og einangraður, og okkur boðið að draga þá ályktun af … hérnahér, ýmsum ljósmyndum af manninum. Það fyrirgefst vonandi þótt ég hirði ekki að ræða slíka heimsku nánar. En einnig er því slegið upp að „sérfræðingar“ telji að Rússar kunni að hafa fyrirætlanir um innrás í Litháen og hugsanlega önnur ríki: allt tilhæfulausar getgátur út í loftið. En Pútín ætlar að nota efnavopn, helvítis beinið! Þessi ásökun kom fram þegar Rússar höfðu fundið bandarísk lífræn vopn í Úkraínu. Hvað hafa menn svo fyrir sér í því að Rússar hyggist koma höggi á Úkraínuher – en einkum þó sjálfa sig – með beitingu efnavopna? Ekki neitt nema fullyrðingar bandarískra „sérfræðinga“. Fjölmiðlarnir þegja hins vegar þunnu hljóði um fund Rússa, og virðast ætlast til þess að fólk trúi því án athugunar að það sé eintóm Rússalygi. Það ættum við ekki að gera, og síst í ljósi þess sem Tulsi Gabbard hefur dregið fram í dagsljósið. Við ættum ekki heldur að trúa öllum málflutningi Selenskís og úkraínskra stjórnvalda án athugunar, án fjölmiðla sem reyna að gegn því hlutverki sem ósköp alvanalegur borgaralegur lýðræðisskilningur ætlar þeim.

Hugsum nú, gott fólk. Og minnumst þess að Bandaríkin hafa aldrei komið að nokkrum átökum án þess að beita fyrir sig lygum, falsfréttum og blekkingavaðli. Skemmst er að minnast Íraksstríðsins þar sem þetta blasir við. Það sakar varla að setja það á bak við eyrað: fjölmiðlar sem gera ekki annað en að enduróma bandaríska utanríkisstefnu eru ekki áreiðanlegt haldreipi til að komast hjá falsfréttum. Við komumst ekki hjá því að nota eigin dómgreind. Réttilega er vakin athygli á því hvernig þjarmað hefur verið að fjölmiðlun og fréttamennsku í Rússlandi, slíkt er ills viti. En gætum að því að Selenskí hefur gripið til hliðstæðra ráðstafana í Úkraínu til að hafa fulla stjórn á fréttum af stríðinu, og það er einmitt málflutningur stjórnar hans sem er öll uppistaðan í frásögnum vestrænna fjölmiðla. Þetta er fyrir neðan allar hellur. Samkvæmt alvanalegum borgaralegum lýðræðisskilningi hafa fjölmiðlar því hlutverki að gegna að veita okkur áreiðanlegar upplýsingar um staðreyndir mála og ganga úr skugga um á hverju raunar gangi þegar skrítin tíðindi fara að berast. Þessu hlutverki bregðast stórir fjölmiðlar á Vesturlöndum og kjósa fremur að gerast einfaldar málpípur bandarískrar utanríkisstefnu, flytja okkur þvaður sem þarlend stjórnvöld vilja koma á framfæri. Samtímis er mikið gert úr upplýsingaóreiðu sem fylgi Rússum. Því er ekki að neita að þeir ljúga … líka. Alls staðar er almenningi sýnd ótrúleg fyrirlitning með „fréttamennsku“ og „fjölmiðlun“ sem ekki er annað en einhliða áróður á svo heimskulegu plani að þeir sem bera ábyrgð á honum hlytu að skammast sín … ef þeir hefðu minnsta snefil af stolti, metnaði og áræði sem fréttamiðlarar.